Keisarinn er ekki í neinum fötum

Sjaldan hafa menn orðið vitni að jafn afgerandi afhjúpun á blekkingaleik stjórnvalda eins og á ársfundi Landspítalans í gær. Þegar fundinum lauk stóð aðeins eitt eftir: Myndin af keisaranum sem er ekki í neinum fötum!

Í kjölfar kraftmikillar undirskriftasöfnunar um meira fé í heilbrigðisþjónustuna s.l. haust lofuðu núverandi stjórnarflokkar, allir sem einn, að þeir myndu sannarlega efla innviði heilbrigðiskerfisins fengju þeir til þess atkvæði. Og í stjórnarsáttmála þeirra segir að heilbrigðismálin verði sett í forgang. Það þykist ríkisstjórnin nú hafa gert og vel það með ríkisfjármálaáætlun til 2022 – þar sem litlum 45 milljörðum til viðbótar verði varið inn í málaflokkinn og hafi aldrei verið meira! Á fundinum var flett ofan af þessum blekkingum á beinskeyttan hátt og mátti greina vonbrigði og jafnvel reiði í garð stjórnvalda í salnum.

45 milljarðar verða -5,2

María Heimisdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans rakti fullyrðinguna um 45 milljarða króna aukningu til heilbrigðisþjónustunnar upp í frumeindir – og eftir stendur að það eru 5,2ja milljarðar króna í mínus!

Hvernig má það vera? Jú, 35,6 milljarðar fara í fjárfestingar vegna byggingar nýs Landspítala. Þá eru eftir 9,4. Af þeim fara 2 milljarðar til ráðstöfunar hjá Sjúkratryggingastofnun Íslands vegna aðgerða erlendis. Þá eru eftir 7,4 milljarðar fyrir alla innlenda þjónustu í fimm ár. Vegna fólksfjölgunar eykst þjónustuþörfin um 1% á ári sem krefst 4,4 milljarða. Þá eru eftir 3 milljarðar. Eyrnamerkt verkefni eins og rekstur nýja jáeindaskannans og áframhaldandi átak í biðlistamálum kostar 8,2 milljarða! Öll eru þau verkefni mikilvæg og ef þau verða framkvæmd vantar 5,2 milljarða inní áætlunina. Hvar á að taka það fé?

Að falla í bókfærslu 101

Eitt af því fyrsta sem menn læra í bókfærslu og reikningshaldi er að gera greinarmun á útgjöldum í rekstur og fjárfestingar, enda þarf áfram að gefa börnunum grjónagrautinn þótt menn séu að byggja hús! En þetta er ekki gert í ríkisfjármálaáætluninni – þar er öllu blandað saman: 45 milljarða aukning í heilbrigðisþjónustu er það kallað þar enda þótt 90,5% fari í húsbyggingar og aðeins 9,5% í rekstur. Einhvern tíma hefði maður nú fallið á prófi í framhaldsskóla fyrir minna!

Við þetta má bæta að 90% fjárins kemur ekki inn í kerfið skv. áætluninni fyrr en síðustu tvö árin fyrir næstu kosningar.

 

Flett ofanaf blekkingu í beinni

Á blaðsíðu 81 í ríkisfjármálaáætluninni er að finna rökstuðning og forsendur fyrir framlögum til heilbrigðismála. Þar er birt samanburðartafla sem á að sýna heildarframlög til heilbrigðismála á Norðurlöndunum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. María Heimisdóttir fjármálastjóri Landspítalans sagði að það hefði vakið athygli manna hversu lágar tölurnar væru, t.d. aðeins 6,9% í Svíþjóð, og hversu vel Ísland kæmi út í samanburðinum, 7,4% og rétt neðan við heildarmeðalatalið sem er sagt 7,8%.

 

Við nánari athugun kom í ljós að forsendur fjármála- og efnahagsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins eru ekki þær sömu og í fyrri fjárlögum. Þær eru allt aðrar en þær sem hingað til hafa verið notaðar og eru notaðar í öllum löndunum, til að bera saman útgjöld til heilbrigðismála. Tölurnar í fjármálaáætluninni sýna útgjöld skv. ríkisreikningi en ekki viðmiðum OECD um heilbrigðisþjónustu sem birtast reglulega í ritinu Health at a Glance, og hingað til hafa verið notuð á Íslandi. Ef Health at a Glance er sett í leitarstreng á vef velferðarráðuneytisins kemur upp heil síða með samanburði allt frá árinu 2005 a.m.k.

Hvern er verið að blekkja með þessari nýstárlegu framsetningu? Augljóslega er verið að gefa í skyn að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé ekki undirfjármögnuð – jafnvel betur fjármögnuð en í Svíþjóð! Tilgangurinn er svo augljós að aftur kemur keisarinn góði upp í hugann. En það er gengið lengra: Á sömu blaðsíðu, nr. 81 í ríkisfjármálaáætluninni þar sem fjallað er um töfluna góðu segir:

„… Á sviði heilbrigðismála er hlutfallið aðeins lægra hér en á hinum Norðurlöndum. … Sé opinber þjónusta lakari hér á landi en á öðrum Norðurlöndum og árangur lakari er skýringanna ekki að leita í lægri fjárframlögum.“

Er nema von að stjórnendum Landspítalans hafi brugðið?

Að afneita staðreyndum

Á spítalanum eru teknar saman allar mögulegar og ómögulegar tölur um starfsemina – þannig er nákvæmlega vitað hversu margir komu í gær á þessa deildina eða hina, hvað aðgerðir voru margar í fyrradag og hvað hver þeirra kostaði. Áætlanir spítalans eru þess vegna mjög nákvæmar, byggðar á staðreyndum og reynslu. – Hvernig má það vera, spurði Páll Matthíasson forstjóri, að velviljaðir stjórnmálamenn neita að horfast í augu við blákaldar staðreyndir? Eru tölurnar of margar, of nákvæmar?

S.l. laugardag var gengið um heim allan til að mótmæla afneitun stjórnmálamanna á staðreyndum og niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Í fréttatíma sjónvarps tók vísindamaður tvö dæmi: Afneitun á því að loftslagsbreytingar séu af manna völdum þrátt fyrir að allar rannsóknir sýni annað, og afneitun á afleiðingum þess að selja brennivín í búðum – sem hefur ítrekað verið sýnt framá víða um heim. Hvort tveggja með vísindalegum rannsóknum.

Sjálfur sagðist forstjórinn vera jafn fyrirsjáanlegur og Lúðrasveitin Svanur sem birtist á sumardaginn fyrsta – árlega fer hann fyrir fjárlaganefnd og ráðuneyti og reynir að skýra tölurnar og stöðuna. En þótt þannig hafi ítrekað verið sýnt framá að spítalinn er undirfjármagnaður hafna ráðamenn tölulegum staðreyndum og útreikningum – ef þeir sýna annað en þeim þóknast. Er þetta boðlegt?

Álfheiður Ingadóttir er formaður félags VG í Reykjavík og fyrrverandi heilbrigðisráðherra.