Kemur fjárlagafrumvarpið betur út fyrir alla hópa?

„Telur hæstvirtur forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?,“ spurði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Í inngangi að spurningu sinni rifjaði Katrín upp að fram hafi komið að þingflokkur Framsóknarflokkssins hafi sett almenna fyrirvara við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í svari sínu sagði Sigmundur Davíð að hinn almenni fyrirvari Framsóknarflokksin við fjárlagafrumvarpið lúti að því að frumvarpið nái þeim markmiðum að auka ráðstöfunartekjur allra hópa og lækka verðlag í landinu.

„Við fáum hér yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands sem lýsir þessu frumvarpi sem aðför að launafólki og tekur að einhverju leyti undir áhyggjur hæstvirts forsætisráðherra frá því fyrir nokkrum árum,“ sagði Katrín. „En við erum líka að sjá margar ályktanir frá félögum Framsóknarflokksins um land allt, félagsmenn í þessum flokki lýsa yfir áhyggjum af þeim fyriráætlunum að hækka eigi matarskatt“. Síðan spurði Katrín: „Telur hæstvirtur forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?“