Konur og karlar

Þær eru ekki eins og þeir, sem eru öðruvísi en þær og þau eru ólík. Almennt séð leggja konur áherslu á aðra þætti – forgangsröðun karla er önnur og eftirfylgni mála öðruvísi. Konur eru með málefni er snúa að börnum, heilsu, menntun og umhyggju svo að örfá dæmi séu tekin, ofar á blaði en karlar, sem eiga það til að líta framhjá umræddum málaflokkum. Þeir gera það óvart, ekki illa meint af þeirra hálfu. Framangreint er jafn vond alhæfing og alhæfingar eru almennt, greinarhöfundur skal fúslega viðurkenna það – en stöldrum aðeins við. Talað er um mjúka málaflokka en þetta er býsna harður heimur þannig að fullyrða má að staðhæfingar um mýkt séu verulega ýktar eða hreinlega rangar. Og konur eru óumdeilt harðir naglar eins og karlar.

Að því sögðu er ekki úr vegi að undirstrika mikilvægi þess árið 2018, einni öld frá fullveldi Íslands, að konur og karlar komi jöfnum höndum að ákvarðanatöku, hvort sem um er að ræða einka- eða opinber fyrirtæki og stofnanir, hvernig svo sem eignarhaldi er skipt eða háttað að öðru leyti, óháð því hvað er verið að sýsla með og hvers eðlis ákvarðanatakan er. Það skiptir hreinlega ekki máli að mati greinarhöfundar. Jöfn kynjaskipting er þjóðhagslega hagkvæm og tryggir farsælla og fallegra þjóðfélag og betri umgjörð um samfélagið til lengri tíma litið. Það er nákvæmlega enginn skortur á konum í umrædd hlutverk. En það er fyrirstaða og hún er öðru fremur tilkomin af langvinnu ástandi sem er í djúpum förum vana og ótta við breytt fyrirkomulag. Konur leysa fyrrgreind hlutverk af hendi með síst verri hætti en karlar. En saman leysa konur og karlar mál með farsælli hætti en kynin ein og sér. Við höfum töluvert verk að vinna í að jafna aðkomu karla og kvenna að ákvarðanatöku og stjórnun í þjóðfélaginu. Að hafa konu í hlutverki forsætisráðherra á merkum tímamótum í sögu þjóðar, ásamt ráðherra heilbrigðis- , mennta- , ferða- og dómsmála, er mikil gæfa og blessun fyrir framangreint umbreytingarferli og gefur góð fyrirheit um framhaldið. En við verðum að halda ótrauð áfram og lítum ekki til baka.

Gunnar Árnason