Kosið út af yfirhylmingu og þöggun

Það eru óvenju­legir tím­ar. Ekki bara vegna þess að rík­is­stjórn leidd af Sjálf­stæð­is­flokki sprakk í enn eitt skipt­ið. Það er orðið að venju í íslensku sam­fé­lagi að rík­is­stjórnir sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er í for­svari fyrir eða sitji í, springi og skapi reglu­lega þá óreiðu og glund­roða sem for­manni Sjálf­stæð­is­flokks­ins er nú tíð­rætt um og ótt­ast hvað mest.

Nei, tím­arnir eru óvenju­legir vegna þess að efna­hags­legar ástæður eru ekki ástæða þess núna að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks heldur ekki velli, heldur er ástæðan þær fem­inísku bar­áttu­bylgjur gegn kynja­of­beldi og kyn­ferð­is­af­brotum gegn börnum sem hafa gengið yfir íslenskt sam­fé­lag und­an­farin miss­eri sem hafa nú sprengt rík­is­stjórn. Sem hafa riðlað hinu marg­um­tal­aða feðra­veldi. Orð­inu sem svo margir hata.

Leyndarhyggjan hefur verið skoruð á hólm og sam­trygg­ingin í sam­fé­lag­inu hefur opin­berað sitt rétta and­lit. Sam­trygg­ingin spyr ekki um stétt né stöðu; af gögn­unum um upp­reist æru sést að lög­reglu­menn í áhrifa­stöðum mæla með dæmdum nauðgurum og hæsta­rétt­ar­lög­menn og áhrifa­menn í íslensku við­skipta­lífi síð­ustu ára­tug­ina standa þétt með barn­a­níð­ing­um. Þessir karlar taka sér stöðu með þeim sem frömdu glæpina, en láta þján­ingu fórn­ar­lambanna liggja á milli hluta.

Þolendur kyn­ferð­is­af­brota og hrylli­legs barn­a­níðs hafa sýnt ótrú­legt hug­rekki og þraut­seigju. Neitað að gef­ast upp fyrir þöggun og leynd, hafa haldið áfram að krefj­ast upp­lýs­inga og þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórn­ar­kerf­is. Fyrir ólýs­an­legt hug­rekki og magn­aða þraut­seigju þolenda nú og áður, ber að þakka. Marg­falt.

Án þolenda sem sögðu hingað og ekki lengra, án fjöl­miðla sem gáfust ekki upp þó svo að dyrum upp­lýs­inga væri lokað á þá og án fem­inískrar bar­áttu sem virð­ist á svo und­ur­sam­legan hátt ganga í end­ur­nýjun lífs­daga með hverri kyn­slóð, væri íslenskt sam­fé­lag mun verra en það er.

Við sem sitjum á Alþingi verðum að hlusta á þolendur og taka undir með bar­áttu­fólki fyrir útrým­ingu kyn­ferð­is­of­beld­is. Við verðum að virða þessa bar­áttu og halda áfram að leggja okkur öll fram um að breyta íslensku sam­fé­lagi með þeim ráðum sem við höf­um. Annað er óboð­legt.

Það er ekki í boði að segja að hér sé um lítil mál að ræða líkt og ein­staka ráð­herrar og þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa því miður sagt opin­ber­lega. Það er ekki í boði að smætta kyn­ferð­is­af­brot eða gera þar með lítið úr nauðg­un­ar­menn­ingu. Og það er aldrei í boði að standa ekki með börnum sem þurfa að ganga í gegnum hel­víti þegar kemur að kyn­ferð­is­af­brotum gegn þeim.

Sýnum sam­hug og virð­ingu fyrir þolend­um. Berj­umst öll gegn yfir­hylm­ingu og þögg­un. Líka á hinu póli­tíska sviði.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir er þing­maður VG í Suð­vest­ur­kjör­dæmi. Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.