Efnahagsmál og skattar

Áherslur Vinstri grænna í ríkisfjármálum taka mið af grunnstefnu hreyfingarinnar um öflugt samábyrgt velferðarkerfi á Íslandi og um leið að skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun.

Á Íslandi er sama þróun og annars staðar í hinum vestræna heimi hvað það varðar að æ meiri auður safnast á æ færri hendur en um tíu prósent landsmanna eiga þrjá fjórðu alls auðs í landinu. Þessi þróun eykur ójöfnuð og byggist meðal annars á því að skatta- og fjármálakerfi hafa þróast með þeim hætti að hinum ríku er gert auðveldara að verða ríkari en aðrir hópar hafa setið eftir. Þessu er hægt að breyta annars vegar með skattkerfisbreytingum sem miða að því að jafna kjörin og hins vegar með uppbyggingu velferðarkerfisins. Undirstaða þess er ábyrg stefna í efnahagsmálum.

Aukið skattaeftirlit
Til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja frá velferðarkerfinu þarf að stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er og sæti þá ströngu eftirliti.

Þrepaskipt skattkerfi
Þrepaskattur verði nýttur til jöfnunar í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum. Þannig er lögð áhersla á aukin framlög þeirra ríkustu inn í sameiginlega sjóði.

Auðlindarentan til fólksins
Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og tryggja þannig að arðurinn af sameiginlegum auðlindum renni til þjóðarinnar ef þær eru ekki nýttar með samfélagslegum hætti í þágu almennings.

Gistináttagjald að hluta til sveitarfélaga
Gistináttagjald þarf að hækka í endurskoðaðri mynd og skipta tekjunum milli ríkisins og sveitarfélaganna.

Kolefnisgjald
Viðbótar kolefnisgjald verði sett á og unnið að heildstæðri áætlun um græna skattlagningu og græna skattahvata.

Skattlagning stórfyrirtækja
Reglur um þunna eiginfjármögnun verði leiddar í lög og þannig unnið gegn því að ofurskuldsett íslensk dótturfélög í eigu erlendra aðila komi ósköttuðum hagnaði úr landi.

Tryggingagjald og fæðingarorlof
Lög um lengingu fæðingarorlofs og hækkun hámarksgreiðslna (þaks) verði sett og fæðingarorlofssjóði tryggð fullnægjandi fjármögnun, samtímis því að áætlun um lækkun almenns tryggingagjalds vegna tekjuauka af hagsveiflunni verði lögfest.

Tekjustofnar fyrir samgöngur
Markaðir tekjustofnar til vegamála eða ígildi þeirra í tekjuöflun verði færðir upp til verðlags.

Skattleggjum fjármagnið
Ísland skipi sér í framvarðarsveit ríkja þar sem brask með gjaldmiðla og skammtímagróða fjármagnshreyfingar verði skattlagt.

Ábyrg stefna í ríkisfjármálum
Ábyrg stefna í ríkisfjármálum þar sem ekki er eytt um efni fram og tekna aflað fyrir útgjöldum skilar lægri vöxtum til almennings og dregur úr vægi verðtryggingar.

Endurskoðun fjármálakerfis
Gera þarf áætlun um hvað skal selja stóra hluti í þeim bönkum sem nú eru í eigu ríkisins. Eðlilegt er að ríkið verði áfram aðaleigandi Landsbankans. Aðskilja þarf starfsemi bankanna í  viðskipta- og fjárfestingastarfsemi og hins vegar í innlenda og erlenda starfsemi. Skoða þarf forsendur fyrir samfélagsbanka sem starfar samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum.

Félagslegur húsnæðisbanki
Húsnæði eru grundvallarmannréttindi og eðlilegt að áfram verði til félagslegur húsnæðislánasjóður sem tryggi meðal annars lán til kaupa á húsnæði um land allt.

Sæktu prentvæna útgáfu