Unga fólkið er framtíðin

Unga kynslóðin á Íslandi hefur það mun verr en unga kynslóðin fyrir tæpum þrjátíu árum. Unga kynslóðin hefur dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugina og háskólamenntun skilar ekki sama tekjuauka og áður. Unga fólkið á minna í eigin húsnæði en eldri kynslóðir og möguleikinn til að safna fyrir útborgun virðist helsti þröskuldurinn sem stendur í vegi þeirra. Framtíð íslensks samfélags byggist á því að við búum vel að ungu fólki og tryggjum að það vilji lifa hér og starfa.

Húsnæði
Raunverulegir valkostir verði í boði fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði með því að tvöfalda stofnframlög til uppbyggingar leiguhúsnæðis og hækka húsnæðisbætur. Tryggja þarf lán fyrir alla tekjuhópa þannig að þeir sem vilji eignast eigið húsnæði eigi þess kost. Markmiðið er að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum.

Styttri vinnuvika
Vinna þarf að styttingu vinnuvikunnar án skerðingar launa og auka þannig lífsgæði almennings og stuðla að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum og jafnari tækifærum til þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og stjórnmálum.

Sálfræðiþjónusta
Sálfræðiþjónusta á að vera niðurgreidd eins og önnur heilbrigðisþjónusta og það á að tryggja slíkra þjónustu í öllum framhaldsskólum nemendum að kostnaðarlausu.

Lengra fæðingarorlof
Efla þarf fæðingarorlofskerfið. Fæðingarorlofið verði eitt ár. Hækka þarf greiðsluþakið og tryggja þarf leikskólavist að loknu fæðingarorlofi í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Fjölbreyttir framhaldsskólar
Bjóða þarf upp á fjölbreyttar stúdentsprófsbrautir í framhaldsskólum landsins. Það á ekki að vera ákvörðun ráðherra hverju sinni hvert form og inntak náms til stúdentsprófs er heldur á það að lúta faglegu mati skólanna.

Lánasjóður fyrir fólk
Frelsa þarf námsmenn frá yfirdráttarkerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og taka upp samtímagreiðslur. Fella á niður hluta höfuðstóls námslána ef námi er lokið á áætluðum tíma og áfram tryggja að námslán beri í mesta lagi eitt prósent vexti. Endurskoða þarf allt fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna með jafnrétti til náms að leiðarljósi.

Þú átt að ráða því hvar þú býrð
Háhraðanettenging um allt land er forgangsatriði og lykilatriði í að ungt fólk geti skapað sér sín eigin tækifæri óháð búsetu. Gera þarf átak í rafrænni stjórnsýslu þannig að fleiri mál verði hægt að leysa í gegnum netið og minni tíma sé eytt í óþarfa. Styðja þarf við viðleitni til þess að bjóða upp á störf án staðsetningar á vegum fyrirtækja og stofnana.

Sæktu prentvæna útgáfu