Search
Close this search box.

Menning og listir

Landsfundur 2023.

Framsækin og fjölbreytt menningarstarfsemi er ein af undirstöðum íslensks samfélags og hluti af langri sögu, menningararfi og íslenskri tungu. Fjölbreytt menning án aðgreiningar er drifkraftur litríks samfélags.

Menning á að vera aðgengileg öllum hópum samfélagsins og afnema þarf hindranir sem kunna að vera til staðar svo fólk geti notið margs konar menningarforms. Að sama skapi eiga börn að hafa greiðan aðgang að menningu og listum. Efla þarf möguleika barna á að sækja menningartengda viðburði og þátttöku í hvers kyns skapandi starfi og listnámi.

Áfram þarf að styðja af krafti við menningarstofnanir, listaskóla og faglega úthlutunarsjóði og efla listnám á öllum skólastigum enda er menntun grundvöllur öflugs menningarstarfs. Víðtækt hlutverk menningar og lista í samfélaginu á að byggja á skilvirkri stjórnsýslu og þverfaglegu samstarfi innan stjórnkerfisins, milli ríkis og sveitarfélaga, í bland við starfsemi frumkvöðla í lista- og menningarlífinu.

  • Endurskoða þarf lagaumhverfi listmenntunar. Unnið hefur verið að því að tryggja samstarf ríkis og sveitarfélaga um tónlistarmenntun en það þarf að gera á fleiri sviðum eins og t.d. á sviði listdans, kvikmyndagerðar, myndlistar og leiklistar. Aðgengi að faglegu listnámi allt frá grunnnámi til háskólastigs er undirstaða blómlegs lista- og menningarlífs.
  • Hefja á byggingu nýs húsnæðis fyrir Listaháskóla Íslands í Tollhúsinu í Reykjavík. LHÍ skal verða opinber stofnun og tryggja þarf um leið að ekki verði tekin skóla- og efnisgjöld. Brýnt er að styðja bæði við menningarstofnanir og sjálfsprottna menningarstarfsemi með fjármagni og sterkri stjórnsýslulegri umgjörð. Fjárveitingar eiga að byggja á faglegum forsendum og verkefni skulu vera metin af fagaðilum. Samvinna menningarstofnana er mikilvæg til að auka nýbreytni í menningarlífinu og til að fjármunir nýtist sem best.
  • Menningarstefna á Íslandi á að snúast um þátttöku allra. Sérstaklega þarf að efla þátttöku þeirra sem síst sækja sér menningartengda upplifanir vegna hindrana í samfélaginu og aðstöðumunar. Menning og listir eru mikilvægur hluti samfélagsins og þátttaka í menningarstarfsemi og fjölbreyttu, skapandi liststarfi bætir lýðheilsu og eflir fólk með ólíkan bakgrunn til þátttöku í samfélaginu.
  • Menning og listir hafa mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna, þær eru veigamikil stoð í fjölbreyttu atvinnulífi og hagræn áhrif þeirra skipta verulegu máli. Leggja þarf aukna áherslu á að menningarstarfsemi sé fjárfesting til framtíðar, ávísun á aukna verðmætasköpun og fjölbreytt og dýrmæt störf. Efla þarf launasjóð listamanna og verkefnasjóði listgreina ásamt því að tryggja listamönnum gott starfsumhverfi og að hið opinbera greiði þeim fyrir vinnu sína.
  • Varðveisla menningarminja gerir okkur kleift að þekkja menningararf þjóðarinnar og tryggja að honum verði skilað áfram til komandi kynslóða. Styrkja þarf stöðu minja- og menningarvörslu með áframhaldandi faglegu og stjórnsýslulegu sjálfstæði og tryggja nægilegt fjármagn svo málaflokkurinn geti sinnt lögbundnum skyldum sínum. Ísland geymir fjöldann allan af menningarminjum sem brýnt er að skrá og rannsaka en víða eru merkar minjar í hættu m.a. vegna ýmissa framkvæmda, loftslagsbreytinga, jarðraskana og ágangs sjávar.
  • Fornleifasjóður og Húsafriðunarsjóður gegna lykilhlutverki í stuðningi við björgun menningararfsins. Standa verður vörð um sjóðina innan faglegrar sjálfstæðrar stofnunar með þekkingu á málaflokknum. Jafnframt þarf að tryggja faglega og góða samvinnu milli málaflokka minjaverndar og annarra málaflokka þar sem þverfaglegt samstarf kann að vera til staðar.
  • Möguleikar íslenskrar tungu í stafrænum heimi hafa verið stórefldir og brýnt er að halda áfram á þeirri braut þannig að íslensk tunga verði gjaldgeng á stafrænu formi og nothæf í öllum tölvum og tækjabúnaði. Á næstu árum þarf að vinna ötullega að því að tryggja nægar fjárveitingar til þessa verkefnis. Að auki þarf að gera gangskör að því að koma menningararfinum á stafrænt form þannig að hann verði öllum aðgengilegur, m.a. á netinu. Það á einnig við um myndir og hljóðrit í opinberri eigu.
  • Kraftur hefur verið í safnastarfi og uppbyggingu safna í landinu á undanförnum árum og nú hillir loks undir að Náttúruminjasafn Íslands eignist húsnæði við hæfi. En betur má ef duga skal. Söfnin eru ólík en verkefnið hið sama: Varðveisla menningar-, lista- og náttúruarfs þjóðarinnar, miðlun hans og rannsóknir á honum. Efla þarf höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og styrkja sérstaklega starfsemi annarra safna, s.s. í menningarhúsum á landsbyggðinni og sérgreindum byggða-, lista-, skjala- og náttúruminjasöfnum.
  • Menning, listir og hönnun eru vaxandi stoð í íslensku samfélagi. Tímabært er að endurskoða stjórnsýslulega stöðu þessara greina, styrkja hana og auka skilvirkni hennar. Meta þarf þá kosti sem tryggt geta þverfaglega nálgun og samstarf ráðuneyta um greinarnar, þ.m.t. að stofna sérstakt ráðuneyti rannsókna, nýsköpunar, menningar og skapandi greina. Í þeirri vinnu þarf að huga að svæðisbundnum áherslum á menningarmál s.s. í sóknaráætlunum landshlutanna og í alþjóðlegu menningarstarfi, auk þeirra þátta skapandi greina og nýsköpunar sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search