Sjávarútvegur

Meginmarkmiðið með sterkri sjávarútvegsstefnu er sjálfbær nýting fiskistofnanna, ábyrg umgengni um lífríki hafsins, samhengi í byggðaþróun og síðast en ekki síst að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar. Fylgja þarf ráðgjöf vísindamanna við nýtingu fiskistofna. Eiga skal samstarf við nágrannaþjóðir á sviði rannsókna og nýtingar sjávarauðlinda. Auðlindagjald verði tekið af sjávarútvegsfyrirtækjum í hlutfalli við afkomu greinarinnar. Auka þarf strandveiðar og ráðstöfun heimilda til að verja byggðir landsins. Fiskeldi þarf að byggja upp með ítrustu varúð og í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.

Landbúnaður

Öflugur innlendur landbúnaður er undirstaða heilnæmrar og öruggrar matvælaframleiðslu í landinu þar sem hagur bænda og neytenda fer saman. Auka þarf nýsköpun og rannsóknir í landbúnaði, vöruþróun sem og möguleika á rekjanleika með upprunamerkingum. Stefnt skal að kolefnishlutleysi greinarinnar í takt við markmið um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Tryggja þarf ábyrga umgengni við landið, forðast ofbeit sem og bæta möguleika á lífrænum valkostum í hvers kyns landbúnaði.

Ferðaþjónusta

Þjónusta við ferðamenn er orðin ein öflugasta atvinnugrein þjóðfélagsins. Stórbæta þarf aðstöðu ferðamanna og tryggja að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman. Efla þarf rannsóknir á sviði ferðamennsku og byggja ákvarðanir á bestu mögulegu þekkingu. Auka þarf fjármagn til uppbyggingar innviða á flestum sviðum til að koma á móts við hraða og mikla aukningu ferðamanna til landsins. Stórauka þarf menntun starfsfólks í greininni og koma í veg fyrir hvers konar félagsleg undirboð. Meta þarf áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru og umhverfi og efla þolmarkarannsóknir á friðlýstum svæðum, þjóðgörðum og öðrum viðkvæmum svæðum. Setja þarf skýr markmið um vistvæna ferðaþjónustu og nýta enn betur möguleika á að tengja menningu og ferðaþjónustu. Stefnt skal að því að gera gistináttagjald hlutfallsmiðað og taka upp komugjöld af farseðlum. Tryggja þarf eðlilegt hlutfall sveitarfélaga í tekjum af ferðaþjónustu.

Nýsköpun og skapandi greinar

Aukin fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun er grundvallaratriði til að tryggja velsæld samfélagsins til framtíðar. Meðal þess sem þarf að gera er að búa betur að verkmenntaskólum og tryggja að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við háskóla á Norðurlöndum. Stefna þarf að því að hlutfall vergrar landsframleiðslu sem renni til rannsókna og þróunar sé 3% í lok kjörtímabilsins. Mikilvægt er að skýra stjórnsýslu skapandi greina innan stjórnkerfisins, tryggja þarf stöðu lista og skapandi greina innan rannsóknasjóða og tryggja að fagleg sjónarmið séu ráðandi við úthlutun opinbers fjár til verkefna á sviði lista og skapandi greina. Bæta þarf hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf m.t.t. rannsókna, verðmætasköpunar, skapandi greina, útflutnings og nýsköpunar og nýta hagtölur til stöðugra umbóta í menntun, vísindum og nýsköpun.