Krafan um aukna velsæld

Meira en fimmtíu þúsund Íslendingar hafa skrifað undir kröfu um endurreisn heilbrigðiskerfisins, þar sem þess er krafist að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í heilbrigðismál. Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna að 11% séu nefnd sem viðmið og ýmsir fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa spurt á móti hvaðan eigi að taka peningana og telja að þessi krafa kalli á niðurskurð á öðrum sviðum.

Ég er ósammála þeim málflutningi. Ég tel mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi leggi við eyrun þegar stór hluti landsmanna skrifar undir kröfu sem þessa. Krafan snýst um að styrkja heilbrigðisþjónustuna og snertir því eitt af grundvallaratriðum allrar stjórnmálaumræðu, þ.e. hvert á umfang samneyslunnar að vera og hvernig ætlum við að fjármagna hana.

Staðreyndin er sú að allt frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur hún markvisst gengið fram í því að veikja tekjustofna ríkisins. Þar nægir að minna á að eitt af fyrstu málum ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld og hefur útgerðin þannig greitt tugmilljörðum minna til þjóðarinnar undanfarin þrjú ár en ella. Þá má nefna að ákveðið var að framlengja ekki auðlegðarskattinn og ekki heldur orkuskattinn. Þá hefur tekjuskattur á einstaklinga verið lækkaður.

Þessi staða hefur leitt til þess að afgangur af ríkissjóði hefur orðið mun minni en ef haldið hefði verið áfram á sömu braut og mörkuð var á síðasta kjörtímabili. Fyrir síðustu kosningar, 2013, lögðum við Vinstri-græn fram ríkisfjármálaáætlun sem miðaðist við að skattar yrðu ekki hækkaðir en haldið yrði óbreyttri stefnu í tekjuöflun og þar með yrði skapað svigrúm til að styrkja innviði samfélagins. Meðal áherslumála okkar voru að efla heilsugæslu og byggja nýjan spítala, fyrir utan aðra uppbyggingu á sviði heilbrigðis, velferðar- og menntamála.

Þegar stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar spyrja þá 50 þúsund Íslendinga hvaðan þeir vilji taka fjármunina til að efla heilbrigðiskerfið er eðlilegt að benda á að allar þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar voru og eru pólitískt val en ekki nauðsyn. Það hefur verið pólitísk stefna stjórnvalda að lækka skatta sem samrýmist svo sem ágætlega þeirri hægristefnu sem hún stendur fyrir; þ.e. að draga úr umfangi velferðarkerfisins og samneyslunnar, draga úr jöfnuði með skattkerfisbreytingum og lækka skatta og gjöld á þá sem mest hafa milli handanna.

Íslendingar virðast vilja efla samneysluna og skoðanakannanir sýna mikinn stuðning landsmanna við öflugt félagslegt heilbrigðiskerfi, öflugt menntakerfi og öfluga velferð. Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér annað en að hlusta á þessar kröfur. Og þeir verða að vera reiðubúnir að afla þeirra tekna sem þarf til að tryggja samfélagsinnviði. Ég er raunar fullviss um það að landsmenn eru reiðubúnir til þess að leggja meira af mörkum til að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og velferðina, ekki síst ef þeirri tekjuöflun er dreift með réttlátum og sanngjarnari hætti þannig að hinir efnameiri leggi meira af mörkum en þeir sem minna hafa. Það er ábyrg stefna sem mun tryggja aukna velsæld landsmanna allra til lengri tíma.

Katrín Jakobsdóttir