Lægri kosningaaldur 2018

Á Alþingi liggur fyrir frum­varp frá þing­mönnum sex flokka um að ald­urs­mörk kosn­inga­réttar í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum verði við 16 ára aldur í stað 18 ára eins og nú er. Ef frum­varpið verður að lögum fyrir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar árið 2018 munu nærri því 9.000 manns  í við­bót fá tæki­færi til að hafa með atkvæði sínu áhrif á mik­il­vægar ákvarð­anir sem varða líf þeirra og umhverf­i.

Í síð­ustu kosn­ingum hefur þátt­taka ungs fólks verið dræm­ari en eldri kyn­slóða. Þetta er sér­stakt áhyggju­efni, ekki síst vegna þeirra áskor­ana sem bíða þessa unga fólks, til dæmis á sviði umhverf­is­mála svo nær­tækt dæmi sé nefnt. Til að tryggja að sjálf­bærni verði leið­ar­ljós í öllum ákvörð­unum þurfa  stofn­anir sam­fé­lags­ins að efla sam­ráð sitt við ungt fólk og það er mik­il­vægt að ungt fólk hafi áhrif á allar ákvarð­anir sam­fé­lags­ins.

Dræm þátt­taka ungs fólks var sér­stak­lega áber­andi í síð­ustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum 2014 þar sem kosn­inga­þátt­taka fólks undir þrí­tugu var 47,5% en með­al­kjör­sókn 66,5%. Þátt­taka var betri bæði í for­seta­kosn­ingum og alþing­is­kosn­ingum 2016 enda mikið starf unnið í aðdrag­anda síð­ustu þing­kosn­inga til að glæða áhuga ungs fólks. Lands­sam­band æsku­lýðs­fé­laga og Sam­band íslenskra fram­halds­skóla­nema stóðu til dæmis fyrir vit­und­ar­vakn­ingu með því að halda fundi ungs fólks um allt land með fram­bjóð­endum og skipu­leggja skugga­kosn­ingar í fram­halds­skól­um.

Allvíða hafa verið stigin skref í þá átt að lækka kosn­inga­aldur en mis­jafnt er eftir ríkjum hversu langt hefur verið geng­ið.  Aust­ur­ríki var fyrsta landið til að stíga það skref að lækka kosn­inga­aldur í 16 ár í öllum kosn­ingum árið 2007 og kjör­geng­is­aldur í 18 ár nema í for­seta­kosn­ingum þar sem hann er 35 ár. Annað dæmi um lækkun kosn­inga­ald­urs var við þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði Skotlands árið 2014. Almennt þótti hún takast prýði­lega með til­liti til lýð­ræð­is­legra sjón­ar­miða og á grund­velli þess­arar jákvæðu reynslu sam­þykkti skoska þingið með stór­auknum meiri­hluta árið 2015 að lækka kosn­inga­aldur í þing- og sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum úr 18 árum í 16 ár. Mörg önnur Evr­ópu­ríki hafa stigið skref í þessa átt en þing Evr­ópu­ráðs­ins sam­þykkti árið 2011 ályktun um aukið lýð­ræði þar sem því er beint til aðild­ar­ríkja að gera ráð­staf­anir til að efla þátt­töku ung­menna á vett­vangi sam­fé­lags­ins, m.a. með því að kanna hvort rétt sé að lækka kosn­inga­aldur almennt í 16 ár.

Lýð­ræði þarf stöðugt að þroska og efla og það er mik­il­vægt að fest­ast ekki í gömlum aðferðum eða reiða sig á ein­hverja eina aðferð til að efla lýð­ræði. Kosn­inga­aldur er eitt en það eru mörg önnur atriði sem skipta máli. Þess vegna var ákveðið að leggja sér­staka áherslu á lýð­ræð­is­menntun í aðal­námskrá frá árinu 2011 en þar eru lýðræði og mann­rétt­indi meðal sex grunn­þátta aðal­námskrár. Þar er gert ráð fyrir að nem­endur kynn­ist lýð­ræð­is­legum vinnu­brögðum og lífi og starfi í lýð­ræð­is­sam­fé­lagi. Mörg dæmi eru um frá­bær verk­efni á þessu sviði á öllum skóla­stig­um, í leik­skól­um, grunn­skólum og fram­halds­skól­um. Það er hins vegar ekki óeðli­legt að þess­ari auknu áherslu á lýð­ræð­is­menntun ungs fólks fylgi líka tæki til auk­innar ábyrgðar og áhrifa með því að lækka kosn­inga­ald­ur­inn. Í frum­varp­inu er lagt til var­færið skref, að ald­ur­inn verði lækk­aður í 16 ár í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum og að mörgu leyti fer vel á því að miða kosn­inga­ald­ur­inn við skil skóla­stiga.

Um leið stuðlum við von­andi að auk­inni þátt­töku ungs fólks í stjórn­málum og lýð­ræð­is­legri ákvarð­ana­töku sem er lyk­il­at­riði í sam­fé­lagi sem þarf á því að halda að við tökum öll þátt og tökum öll ábyrgð.