Lægstu laun verða að hækka

Eina ferðina enn er látið að því liggja að stöðugleiki í efnahagslífinu sé á ábyrgð þeirra sem minnst hafa milli handanna. Þorsteinn Víglundsson hjá SA segir fullum fetum að ekki verði gengið lengra í hækkun lægstu launa.

VG hefur ávallt lagt áherslu á að skattabreytingar þyrftu að vera í þágu tekjuminnstu hópanna. Þær áherslur hafa verið hunsaðar með öllu af sitjandi ríkisstjórn og hefur fjármálaráðherra meira að segja sagt að markmiðið sé eitt þrep í tekjuskattinum. Þannig yrði horfið frá norræna módelinu sem gerir ráð fyrir þrepaskiptu skattkerfi og mismunun myndi enn aukast í samfélaginu. Ójöfnuður færi vaxandi.

Í samfélaginu öllu eykst óstöðugleiki. Blikur eru á lofti með aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga, námsmanna og þeirra sem þurfa að nýta sér velferðarkerfið. ASÍ hefur þegar bent á að öll þessi atriði komi til skoðunar við kjarasamninga. Það sama hefur BSRB gert. Þá mun hækkun á matarskatti koma verst niður á tekjulægstu hópum samfélagsins.

Fjármálaráðherrann og ríkisstjórnin öll bera fulla ábyrgð á stöðugleika í samfélaginu. Því miður hefur þeim ekki lánast að stýra samfélaginu í þá veru. Andstaða við ríkisstjórnina eykst dag frá degi og Framsóknarflokkurinn virðist ekki uppskera þrátt fyrir skuldaaðgerðir. Stendur ríkisstjórnin undir sínu meginverkefni; því að í samfélaginu ríki sátt og jafnvægi?

Lág- og millitekjuhóparnir eru þeir sem þurfa að njóta afraksturs komandi kjarasamninga. Launin eru einfaldlega of lág og duga ekki fyrir framfærslu fjölskyldnanna. Við annað verður ekki unað en að hlutur þeirra verði réttur í þessari lotu.