Læsi – hvítbók og staða íslenskunnar

Staða íslenskrar tungu hefur verið nokkuð til umfjöllunar undanfarið og því jafnvel verið hreyft að hún kunni að vera í hættu á næstu áratugum ef ekkert verði að gert. Samkvæmt nýlegri skýrslu er staða hennar veik borið saman við önnur mál í Evrópu og er þar ekki síst horft til stafrænnar upplýsingatækni og tölvuumhverfis í daglegu lífi.

Íslenskan á tölvuöld

Af þessum sökum var sett fram, að mínu frumkvæði, og samþykkt þingsályktunartillaga um að gera áætlun sem miðar að því efla tungutækni og styrkja stöðu tungunnar að þessu leyti. Um þetta mál ríkti þverpólitísk samstaða – enda mikið í húfi. Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem geri áætlun um aðgerðir er miði að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áætlunin feli í sér tímasett yfirlit um aðgerðir og áfanga, kostnaðarmat og fjármögnun. Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 1. september 2014.“ Að baki þessari þingsályktun býr góður vilji og henni þarf auðvitað að fylgja vel eftir.. Ég vænti þess að svo verði strax við gerð fjárlaga fyrir árið 2015. Fjárfesting í máltækni er gríðarlega mikilvægur þáttur í íslenskri málstefnu.

Læsi og móðurmál

Það er mitt mat að við umræðu um læsi á Íslandi verði ekki hjá því litið að ræða læsi í víðum skilningi og stöðu tungunnar almennt. Sjálf fékkst ég áður við máltöku- og móðurmálsfræði og verð þess greinilega vör að enska sækir ákaft á í daglegum samskiptum barna og ungmenna sem þó eiga íslensku að fyrsta máli. Því verður vissulega að halda til haga að íslenska er notuð á öllum sviðum samfélagsins og tekur til æ fleiri viðfangsefna, að því leyti er staða hennar sterk. Aftur á móti þarf að gæta að því að enska leikur æ stærra hlutverk í málumhverfi og málnotkun barna og unglinga. Þar eru blikur á lofti og margt sem bendir til að málkennd og orðaforði veikist jafnt og þétt.

Ef íslenskt mál á undir högg að sækja í daglegu lífi barna og unglinga er rétt að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á almennt læsi og lesskilning. Ef til vill er sá læsisvandi sem þykir blasa við í íslensku skólakerfi og var meðal annars lýst í nýlegri Hvítbók um áherslur í skólamálum ekki síst í því fólginn að málskilningur á íslensku kann að vera á hröðu undanhaldi. Raunar sakna ég þess að málskilningur almennt sé ræddur í nýrri hvítbók menntamálaráðherra. Mál og læsi þarf að skoða í samhengi og mál sem þarf að styrkja á mikið undir stuðningi stjórnvalda, skýrri stefnumörkun og fjármagni á öllum sviðum. Þá er ekki nóg að benda á umfang móðurmáls í námskrá eða mælingar á prófum, heldur þarf að vinna að stuðningi við tunguna um allt samfélagið.

Hvað er til ráða?

Til að styrkja stöðu tungunnar þarf að fylgja nefndri þingsályktun eftir með myndarlegum hætti og auka hlut íslensku í tungutækni en ekki síður að efla bókasöfn, þýðingar, innlenda dagskrárgerð, innlenda kvikmyndagerð, leikhús og sköpun og síðast en ekki síst kennslu og rannsóknir í menntun, lestrar- og móðurmálsfræðum. Hvítbók má sín lítils ef þessa samhengis er ekki gætt, flókið og margslungið viðfangsefni verður ekki leyst með þröngri nálgun. Sérstaklega er varhugavert að einblína um of á niðurstöður prófa um læsi og lesskilning í því starfi sem framundan er. Þvert á móti er brýnt að horfa á viðfangsefnið í víðara samhengi og stöðu móðurmálsins í samfélaginu öllu. Hér er hvatt til þess að menntamálaráðherra leiti til allra þeirra sem best til þekkja og horfi ekki framhjá mikilvægi rannsókna og nýsköpunar í þessu efni.