Lagasetningu á flugumferðastjóra mótmælt

Í gær var Alþingi kallað saman eftir að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannessonar ákvað að setja lög á verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra.

Ólöf Nordal innaníkisráðherra, mælti fyrir frumvarpi þar að lútandi sem síðan var samþykkt af þingmeirihluta.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn lagasetningunni. Minnihluti stjórnarandstöðuflokkanna í umhverfis-og samgöngunefnd skilaði af sér minnihlutaáliti við frumvarpið. Stjórnarandstaðan telur að þrátt fyrir að óumdeilt sé að að aðgerðir flugumferðarstjóra hafi töluverð áhrif á ferðaþjónustu og fleiri hagsmunaaðila, ásamt því að hafa áhrif á ferðir almennings til og frá landinu, séu áhrif verkfallsaðgerðanna ekki ógn við almannahagsmuni eða valdi efnahagslegri vá til að unnt sé að réttlæta lagasetningu.  Verkfallsrétturinn sé grundvallarþáttur í rétti stéttarfélaga til að semja um kjör félagsmanna sinna og nýtur verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Í minihlutaálitinu segir m.a.; “Síðan lög voru sett á undirmenn á Herjólfi hefur þessi ríkisstjórn gripið til lagasetningar á verkföll flugvirkja, BHM, hjúkrunarfræðinga og flugmanna sem sömdu reyndar áður en lögin voru samþykkt. Þessar tíðu lagasetningar eru því áhyggjuefni og bera vott um virðingarleysi fyrir samningsrétti á vinnumarkaði. Minni hlutinn lýsir þess vegna áhyggjum yfir því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu ríkisstjórnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar og hafa neikvæð og ófyrirséð áhrif á þróun vinnumarkaðarins”

Ennfremur segir þetta; “Lög á kjaradeilur virðast orðin hluti af almennri kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar og fyrirsjáanlegur þáttur í viðbrögðum stjórnvalda við flóknum aðstæðum á vinnumarkaði.”

Hér má lesa minnihlutaálit stjórnarandstöðuflokkkanna í umhverfis – og samgöngunefndar en Svandís Svavarsdóttir er fulltrúi VG í nefndinni.