Landsbyggðin fjársvelt?

Þingmenn VG voru á fleygiferð í liðinni viku, kjördæmaviku, og sátu fundi með sveitastjórnarfólki og forsvarsfólki helstu stofnanna. Þingmenn hittu íbúa og góða félaga um land allt ásamt því að sitja kraftmikla fundi bænda og samtaka sveitafélaga og heimsóttu stofnanir á borð við Skaftfell – miðstöð myndlistar á Austurlandi –  Háskóla Íslands, Lýðháskólann LungA og Mími símenntun.

Þrátt fyrir góða og upplýsandi fundi má fullyrða að sveitastjórnarfólk hvar sem er á landinu hafi viðrað sömu áhyggjur sínar við þingmenn. Þær áhyggjur snúast um að þrátt fyrir batnandi stöðu ríkissjóðs er mikill skortur á nauðsynlegu fjárframlagi ríkisins til innviða samfélaga á landsbyggðinni, uppbyggingu samfélagsþjónustu og almenns viðhalds á grunnþjónustu við íbúa.

Lilja Rafney orðar það svo eftir fundi sína og heimsóknir í Norðvesturkjördæmi;

„Mikil óánægja var meðal sveitastjórnarfólks að í fyrirliggjandi fjárlögum er landsbyggðin fjársvelt í allri innviðauppbyggingu s.s, samgöngum, framhaldsskólunum og heilbrigðismálum. Einnig var rætt við okkur að hægt gangi að fjármagna háhraðatengingar og að jafna orkukostnað. Segja má að það sem brann á sveitastjórnarmönnum í ferðum okkar vorum miklar áhyggjur af vanfjármögnun á málefnum fatlaðra. Fólk var líka áhyggjufullt yfir þróuninni í almenningssamgöngum þar sem einkaaðilar eru að fara inn á sérleyfi strætó. Mikil óánægja var með lokanir útibúa Landsbankans og mikla fækkun opinberra starfa í kjördæminu. Hávær krafa var gerð á að stjórnvöld kæmu með innspýtingu inn í grunngerð samfélaganna, sem mörg hver væru orðin brothættar byggðir og að stjórnvöld sýndu í verki en ekki bara í fögrum fyrirheitum að efnahagsbatinn skila sér út á landsbyggðina sem ekki er að njóta þenslunnar á höfuðborgarsvæðinu.“

Í sama streng tekur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eftir ferðalög og fundi þingmanna með sveitastjórnarfólki  í Norðausturkjördæmi;

„Það sem stendur uppúr eftir kjördæmaviku eru áhyggjur fólks af samgöngumálum og  ljósleiðaratengingu, tekjuskipting sveitarfélaga og ríkisins og áhyggjur af brölti Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, með framhaldsskólana.“