Landsmenn þvingaðir í viðskipti við Auðkenni

Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í dag út í hvernig á því stæði að eina rafræna undirskriftin sem tekin yrðu gild í tengslum við skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar væru á vegum fyrirtækisins Auðkenni. „Það er engu líkara en að það eigi að nota svokallaða skuldaleiðréttingu stjórnvalda til þess að þvinga landsmenn alla inn í viðskipti við eitt tiltekið fyrirtæki, Auðkenni,“ sagði Ögmundur og óskaði eftir svörum ráðherra á því hver tók ákvörðun um að haga málum með þessum hætti.

Ögmundur fagnaði þeim svörum ráðherra að til að til stæði að endurskoða tilhögunina með ýmsum hætti en sagði svo: „Sú spurning vaknar hvort menn þurfi ekki sams konar öryggi þegar menn skila virðisaukaskattskýrslum eða skattskýrslum almennt, eða taka á móti miklum peningum, en þá hefur þessa ekki verið krafist.“ Ögmundur bætti við: „Og síðan spyr ég sjálfan mig líka hvers vegna menn þurfi að staðfesta með undirskrift sinni útreikninga stjórnvalda hvað þetta snertir. Eru menn að afsala sér einhverjum réttindum með því móti – réttinum til að áfrýja eða kæra?“ Loks minnti Ögmundur á að innan stjórnkerfisins hafa verið miklar deilur um þetta atriði: „Og nú er að vakna upp draugur sem hefur stundum sofið og stundum vakað í fjármálaráðuneytinu sem er að nota þetta tækifæri til að efla viðskiptin við Auðkenni.“