Landspítali um taugalækna og uppbyggingu

Landsspítalinn sendi í dag frá sér frétt um stöðu þjónustu göngudeilda spítalans sem varpar nýju ljósi á fréttaflutning í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær, þar sem taugalæknir á stofu sem ekki hefur fengið samning við Sjúkratryggingar og forstjóri sjúkratrygginga lýstu neyð Parkinsonsjúkra sem ekki gátu notið niðurgreiddrar þjónustu áðurnefnds læknis, þar sem heilbrigðisráðuneytið hafnaði samningum við hann.
Tilkynning Landspítalans er hér:

 

Með þróun í meðferðarformum hefur innlagnaþörf fyrir tiltekna sjúklingahópa minnkað en þörf fyrir náið sjúkrahústengt eftirlit aukist að sama skapi. Landspítali veitir fjölbreytta þverfaglega göngudeildarþjónustu fyrir landsmenn alla og eru dag- og göngudeildarkomur ríflega 350 þúsund á ári. Fyrirséð er að með áframhaldandi þróun meðferðarforma og auknum fjölda í hópi þeirra sem þjónustuna þurfa, einkum í hópi aldraðra, muni þörf fyrir  dag- og göngudeildarþjónustu aukast.

Í framtíðaruppbyggingu á starfsemi Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir göngudeildarhúsi sem samkvæmt áætlun mun rísa 202X. Landspítali hefur hins vegar ákveðið að bregðast þegar við og verður skrifstofustarfsemi spítalans flutt í Skaftahlíð en húsnæðinu á Eiríksgötu 5 breytt í göngudeildarhús og er gert ráð fyrir að starfsemi hefjist þar vorið 2019

Embætti landlæknis gerði í sumar úttekt á aðgengi að þjónustu taugalækna í kjölfar ábendinga þar um. Ítreka má að úttektin laut að þjónustu við einstaklinga með allar tegundir taugasjúkdóma, s.s. Parkinson, MS, MND o.fl. Hún sneri að aðgengi á landsvísu en eðli máls samkvæmt beindist umtalsverður hluti að þjónustu á göngudeild taugalækninga á Landspítala. Sú deild sinnir sérhæfðri göngudeildarþjónustu við sjúklinga með taugasjúkdóma og er ein sinnar tegundar á landinu. Læknar og hjúkrunarfræðingar sinna móttöku sjúklinga en einnig veita næringarráðgjafar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, talmeinafræðingar, félagsráðgjafar, prestar, sálfræðingar og ritarar þjónustu á deildinn.

Frá árinu 2015 til 2018 hefur stöðugildum taugalækna fjölgað og starfsemi göngudeildarinnar aukist umtalsvert (úr 1600 í 2500). Engu að síður er biðtími til sérfræðinga á göngudeild Landspítala 3,5 mánuðir og er stefnt að því fjölga sérfræðingum í taugalækningum enn frekar til að mæta þessari þörf. Samhliða mun ráðagjafarþjónusta taugalækninga við meðferðaraðila utan spítala aukast og sérstaklega gert ráð fyrir auknu samstarfi við heilsugæslu og öldrunarþjónustuna. Landspítali tekur því undir ábendingar Embættis landlæknis um að samþætta þurfi þjónustu við þessa sjúklingahópa.

Margir af þeim sjúklingum sem taugalæknar sinna þjást af krónískum hrörnunarsjúkdómum svo sem Parkinsons sjúkdómi og MS. Landspítali tekur undir þá ábendingu landlæknis að þjónustu við þessa sjúklingahópa þurfi að samþætta með heilsugæslunni og öldrunarþjónustunni og er sammála um að vinnustofa með haghöfum væri góð nálgun við slíka vinnu.

Nú á haustmánuðum er fyrirhuguð vinnustofa með fulltrúum allra heilbrigðisumdæma/stofnana á landsbyggðinni til að samþætta og bæta þjónustu við sjúklinga með heilablóðfall um land allt. Sú vinnustofa gæti markað ákveðin þáttaskil varðandi samvinnu taugalækna við þjónustuaðila á landsbyggðinni varðandi sjúklinga með taugasjúkdóma.