,

Landsskipulagsstefna

Ég hef falið Skipulagsstofnun að ráðast í gerð landsskipulagsstefnu þar sem fjallað er um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála.

Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015-2026 gildi áfram en að þessir þættir verði mótaðir nánar í henni. Hvernig má til dæmis beita skipulagsgerð til að draga úr losun eða stuðla að bindingu gróðurhúsalofttegunda? Eða til að bregðast við og aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem eru óumflýjanlegar?
Ég legg líka áherslu á að mótuð verði stefna um skipulagsgerð með tilliti til landslags í þéttbýli, dreifbýli og óbyggðum. Í því samhengi er til dæmis mikilvægt að skoða óbyggð víðerni, skipulag vindorkunýtingar og landnotkun í dreifbýli.
Við þekkjum öll hvernig útivera, ekki síst í villtri náttúru og á grænum svæðum getur hjálpað okkur að hlaða batteríin. Vaxandi meðvitund er um áhrif hins byggða umhverfis á andlega og líkamlega heilsu og vellíðan, t.d. vönduð almenningsrými, aðgengi að villtri náttúru og grænum svæðum, aðstaða til göngu og hjólreiða o.s.frv. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að í landsskipulagsstefnu verði sett fram stefna og leiðbeiningar um skipulagsgerð sem taki mið af þessum sálfélagslegu þáttum eins og þeir eru kallaðir.
Ég hlakka til að fylgjast með þessari mikilvægu vinnu sem unnin verður í víðtæku samráði við samfélagið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Umhverfis og auðlindaráðherra