Landstjórn UVG ályktar

Landstjórn UVG sendir frá sér eftirfarandi ályktun:
Ung vinstri græn fordæma loftárásir bandarískra, breskra og franskra stjórnvalda í Sýrlandi, en loftárásirnar eru óþarfa stríðsaðgerðir sem framkvæmdar eru þvert á vilja Sameinuðu þjóðanna og valda ómældri þjáningu og blóðsúthellingum almennra borgara. Slíkar aðgerðir eru síst til þess fallnar að stuðla að friði.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkana er áhersla lögð á friðsamar lausnir í utanríkismálum. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa sett það að markmiði að tala fyrir friðsamlegum lausnum þrátt fyrir áframhaldandi veru í NATO þá krefjumst við þess að stjórnvöld grípi til frekari aðgerða á alþjóðlegum vettvangi til þess að stuðla að friðsömum lausnum, t.d. með því að taka skýra afstöðu gegn hernaðaraðgerðum og opinberlega fordæma slíkar aðgerðir ásamt því að gera allt í sínu valdi stendur til þess að þrýsta á friðsamar lausnir í stað hernaðaraðgerða.
Að því sögðu telja Ung vinstri græn að Ísland geti ekki talist friðsamt land og raunverulega talað fyrir auknum frið í heiminum án þess að standa utan allra hernaðarbandalaga, fordæma stríðsrekstur og berjast fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi. Vera Íslands í NATO mun ávallt gera íslensk stjórnvöld vanmáttug að ákveðnu leyti til þess að gagnrýna aðgerðir sem eru framkvæmdar eða studdar af því hernaðarbandalagi.