,

Lausn kjaradeilu ljósmæðra

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra

Birtist í Morgunblaðinu 2. ágúst 2018

Í síðustu viku náðist langþráð lausn í kjaradeilu ljósmæðra, þegar Ljósmæðrafélag Íslands samþykkti miðlunartillögu ríkissáttasemjara í máli félagsins og fjármála- og efnahagsráðherra. Þar með komst á nýr kjarasamningur aðila, sem mun gilda til 31. mars 2019. Í miðlunartillögunni felst einnig að sérstökum gerðardómi verður falið að kveða upp úr um það hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra, og að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa áhrif á laun. Í vikunni skipaði ríkissáttasemjari gerðardóm sem mun ljúka störfum eigi síðar en 1. september 2018.

Þessi málalok eru mikill léttir. Verðandi mæður og feður geta andað léttar nú þegar fæðingarþjónustan færist í eðlilegt horf, auk þess sem álag á heilbrigðisstarfsfólk sem hefur sinnt fæðingarþjónustu síðustu vikur og mánuði á meðan á kjaradeilunni stóð minnkar nú smám saman. Margar þeirra ljósmæðra sem höfðu sagt upp störfum vegna kjaradeilunnar hafa dregið uppsagnir sínar til baka, en þann 31. júlí höfðu 19 ljósmæður af 30 sem höfðu sagt upp störfum á Landspítala dregið uppsagnir sínar til baka. Það er mikið gleðiefni að ljósmæður snúi aftur til starfa á spítalanum, og von mín er sú að enn fleiri ljósmæður sem hafa sagt upp störfum muni snúa aftur til vinnu á næstunni.

Í kjaradeilu ljósmæðra kristallaðist umræða um það að störf kvennastétta beri að meta að verðleikum. Sú hefur ekki verið raunin í gegnum tíðina, og enn eimir eftir af þeirri hugsun að störf kvenna séu á einhvern hátt ekki jafnverðmæt störfum karla. Óánægja stórra kvennastétta í heilbrigðiskerfinu með kjör sín, til dæmis ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga, er dæmi um það.

Það er brýnt að bæta kjör þessara stóru kvennastétta. Að sjálfsögðu eru kvennastörf jafnverðmæt störfum karla, og ábyrgð stjórnvalda í þessum efnum er mikil. Fleira þarf þó að sjálfsögðu að koma til. Verkalýðshreyfingin þarf að leggjast á árar með stjórnvöldum, sem og atvinnulífið, og skapa þarf sátt um leiðréttingu á kjörum stórra kvennastétta sem halda uppi íslensku samfélagi.

Nýafstaðin kjaradeila ljósmæðra er mikilvæg áminning um það að við þurfum að bæta kjör og aðbúnað kvennastétta svo starfsumhverfið sé eftirsóknarvert. Tryggja þarf að launasetning stórra kvennastétta sé ávallt í samræmi við álag, menntun og inntak starfanna sem um ræðir og að kyn hafi aldrei áhrif á ákvarðanir um laun. Einnig er mikilvægt að tryggja að fyrir hendi séu möguleikar til framgangs í starfi og starfsþróunar, þátttöku í þekkingarþróun, vísindastarfi og teymisvinnu.  Aðeins þannig sköpum við eftirsóknarverð störf í heilbrigðisþjónustu og tryggjum sanngjörn laun öllum til handa.