Leysir bann við Airbnb húsnæðisvandann?

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er frekar einfalt fyrirbæri. Hann er einkadrifinn að mestu leyti og lögmál markaðarins ráð för. Hagsveiflan er svo sveiflukennd að ýmist er magn bygginga á hverjum tíma í ökla eða eyra. Þetta er ekkert nýtt og á engum að koma á óvart. Vandinn í húsnæðismálum núna á rætur sínar að rekja til þeirra sem hafa stjórnað hér sveitarfélögum og setið í ríkisstjórnum síðustu fimm áriðn í það minnsta. Það var lítið byggt eftir hrun frjálshyggjunnar og var því strax fyrirséð að það yrði skortur á húsnæði árin á eftir. Og fyrir hvert ár eftir hrun var fyrirséð að vandinn væri að vaxa. Það var því á ábyrgð þeirra sem höfðu ákvörðunarvaldið hvernig staða yrði núna í dag.

Umræðan um húsnæðismálin er að verða mjög hávær og eru þeir sem bera mesta ábyrgð farnir að átta sig á því að ábyrgðin beinist að þeim og snúa vörn í sókn. Sem dæmi þá vill bæjarstjórinn í Kópavogi banna skammtímaleigu húsnæðis á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er ráð í sjálfu sér en það vakti athygli mína að hann ætlar öðrum að banna eða láta aðra taka ákvörðun um þessi mál. Í Kópavogi þar sem ég þekki best til sátu menn með hendur í skauti allt of lengi. Höfðu engan áhuga á því að koma neinum málum í gang eða taka þátt í neinum verkefnum. Sömu menn og vilja setja á bönn vegna eigin vanrækslu í þessum málaflokki. Markaðurinn átti að sjá um þetta. Ef menn hefðu bara haft örlitla framtíðarýn og örlítinn kjark og farið af stað fyrir 5 árum eða svo væri staðan önnur. En menn völdu að gera ekki neitt.

Ferðamannastraumurinn er ný breyta í húsnæðismálunum og var ekki fyrirséð. Það togast óneitanlega á innstreymið af tekjum vegna ferðamannanna og svo að leggjast gegn því að þeir fái gistingu. Hversu lengi þetta mun vara sér sennilega enginn fyrir en að öllum líkindum gengur þetta yfir eins og flest gullæði sem yfir okkur gengur. Síldin kom og Síldin fór, gömul saga og ný.

Það kann að hljóma einkennilega en þeir sem telja að markaðurinn leysi öll heimsins vandamál eru núna mættir og vilja hafa afskipti af honum. Ekki bara afskipti heldur vilja þeir líka ráðskast með eignir fólks. Þetta eru alveg ný stefna hjá þeim sem telja að markaðslögmálin leysi allan vanda. Og þó þá þarf þetta ekki endilega að vera þversögn í þeirra hugmyndafræði. Það er nefnilega þannig að einu sinni máttu allir veiða fisk í sjónum. Menn ákváðu að koma böndum á þau mál. Við vitum hvernig þeim málum er háttað í dag. Það gæti vel þjónað sama tilgangi að banna fólki að ráðstafa eignum sínum að vild, ferðamannaauðlindin er takmörkuð þó svo að hún sé stór og mikil í augnablikinu. Það er þá ekki ráð nema í tíma sé tekið að tekjurnar rati í réttar hendur í framtíðinni.

Það er ákveðin lærdómur sem við þurfum að draga af vanda dagsins og hann er sá að ríki og sveitarfélög eiga að byggja þegar sem verst árar í samfélaginu og minnka þær framkvæmdi þegar að hagkerfið er komið á mikla siglingu eins og í dag. Við eigum að vera óhrædd við það að láta samfélagi og sameiginlega sjóði okkar viðhalda byggingarmagni í niðursveiflunni í hagkerfinu. Þannig er mögulegt að koma í veg fyrir mikinn skort sem hefur vondar afleiðingar í öllum okkar mælingum á vöxtum og verðlagi. Húseignir hækka í bólu eins og nú er og bitnar það mest á okkur sjálfum og ekki síst unga fólkinu. Til allra hamingju þá eru margir aðilar að byggja núna en það húsnæði verður ekki tilbúið á morgun og ekki hinn heldur á tveim til þremur næstu árum. Við erum sennilega að nálgast toppinn í hagsveiflunni í þetta skiptið og þegar niðursveiflan hefst þá þurfa sveitarfélögin að grípa boltann og viðhalda byggingarframkvæmdum.

Arnþór Sigurðsson, formaður VG í Kópavogi