Lilja Rafney vill ræða samdrátt á byggðakvóta í þingnefnd

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, hefur óskað eftir því að atvinnuveganefnd Alþingis komi saman til fundar og ræði nýja reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta. Í reglugerðinni kemur fram að almennur byggðakvóti sem úthlutað er til byggðalaga, sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og eru háð veiðum og vinnslu á botnfiski, minnkar um fimmtung milli fiskveiðiára. Byggðakvóti Byggðastofnunar hækkar hins vegar um 500 tonn.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Lilja Rafney það afar mikilvægt að pólitísk umræða fari fram um stefnu stjórnvalda í byggðamálum og skiptingu byggðakvóta. „Það orkar tvímælis ef skerðing á að koma þarna fram á sama tíma og aukning er í kvóta á þorski til að mynda. Þarna er verið að skerða kvóta til byggðarlaga sem síst skyldi. Atvinnuveganefnd ætti að taka þetta til umfjöllunar og ræða stefnu stjórnvalda”

 

Þess má geta að við úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga á þessu fiskveiðiári voru um 6.800 tonn til skiptanna en verða um 5.600 tonn á næsta fiskveiðiári sem hefst í september.