LÍN-frumvarp sem eykur ójöfnuð og misskiptingu​

Fyrir Alþingi liggur nú nýtt frum­varp um Lána­sjóð íslenskra náms­manna. Frum­varpið felur í sér miklar breyt­ingar á náms­lána­kerf­inu, breyt­ingar sem ýta undir ójöfnuð verði þær að lög­um. Meðal þeirra breyt­inga sem lagðar eru til er að nem­endur fái náms­styrk í hverjum mán­uði en verði frum­varpið að lögum munu nem­endur í láns­hæfu námi eiga þess kost að fá styrk upp á 65 þús­und krónur á mán­uði í fimm skóla­ár, upp­fylli þeir kröfur um náms­fram­vind­u.

Þegar rýnt er í þær heild­ar­breyt­ing­arnar sem boð­að­ar  eru kemur þó í ljós að frum­varpið er ekki til þess fallið að auka jafn­rétti til náms. Öllu heldur hefur það þau áhrif að mis­skipt­ing eykst.

Í frum­varp­inu eru lagðar til marg­þættar breyt­ingar sem leiða til ójöfn­uð­ar. Á sama tíma og til stendur að veita öllum stúd­entum náms­styrki, óháð því hvort þeir þurfa á styrknum að halda eður ei, stendur til að leggja niður tekju­tengdar afborg­anir námlána og hækka vexti af afborg­un­um. Í nefnd­ar­á­liti minni­hluta alls­herj­ar- og mennta­mála­nefndar Alþingis segir m.a. að afborg­un­ar­byrði muni hækka hjá meiri­hluta þeirra sem taka náms­lán og að ljóst sé að stúd­entar sem þurfa að taka náms­lán stöðu sinnar vegna greiði óbeint fyrir þá styrki sem stúd­entar sem ekki þurfa að taka náms­lán njóta. Einnig er lagt til að end­ur­greiðsla lán­anna hefj­ist fyrr, tak­mark­anir verði settar á skóla­gjalda­lán og þeir nem­endur sem þurfi að hægja á námi sínu, t.d. vegna veik­inda, geti ekki fengið styrk.

Hlut­verk Lána­sjóðs íslenskra náms­manna er að tryggja þeim sem falla undir núgild­andi lög um lána­sjóð­inn tæki­færi til náms án til­lits til efna­hags en umræddar breyt­ingar brjóta í bága við þau mark­mið. Frum­varpið gerir að verkum að mis­skipt­ing eykst og vegur þannig að jafn­rétti til náms. Náms­lána­kerfið hefur þannig bein áhrif á sam­fé­lagið okk­ar. Vinstri græn trúa því að allir eigi að hafa tæki­færi til að stunda nám á háskóla­stigi, án til­lits til efna­hags og vilja skapa sam­fé­lag jafnra tæki­færa, þar sem allir fá tæki­færi til að blómstra.

Iðunn Garðarsdóttir.

Höf­undur er laga­nemi og fram­bjóð­andi Vinstri grænna í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norð­ur.