Loftslagsmál og Aflið rædd á þingi

Þingmenn Vinstri grænna áttu í líflegum orðaskiptum við ráðherra á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.

Svandís Svavarsdóttir spurði Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hvaða fyrirætlanir ríkisstjórnin hefði í loftslagsmálum í ljósi Loftslagsgöngunnar um helgina og væntanlegrar loftslagsráðstefnu í París á næsta ári. Svandís benti á að loftslagsbreytingar væru meðal annars að leiða til súrnun sjávar, sem væri mikið hagsmunamál fyrir Ísland, og spurði ráðherra: „Hver verður rödd Íslands í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem við þurfum að gæta og ekki síður í ljósi þeirra skuldbindinga sem við erum hluti af?“ Fátt var um svör hjá ráðherra.

Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra út í stuðning við starfsemi Aflsins, sem sinnir þjónustu við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis á Akureyri. Lilja Rafney benti á að Aflið hefði starfað í 12 ár en fengi ekki framlög á fjárlögum heldur aðeins styrki frá ýmsum aðilum sem ekki duga til að standa undir starfseminni. „Ég vil vekja athygli á því að árið 2013 fjölgaði einkaviðtölum um 74% hjá Aflinu,“ sagði Lilja Rafney, og hvatti ráðherra til að „samtök eins og Aflið fái þá viðurkenningu að vera sett á fjárlög.“