Löngu kominn tími á háhraðatengingar á Vestfjörðum

Lilja Rafney Magnúsdóttir hóf í dag sérstaka umræðu á Alþingi um fjarskipti og uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni. Lilja Rafney minnti á víðtækar bilanir sem komu upp í fjarskiptum á Vestfjörðum 26. ágúst síðastliðinn. „Það er með öllu óásættanlegt að heill landshluti verði sambandslaus í margar klukkustundir,“ sagði Lilja Rafney og bætti við: „Maður spyr sig hverjar afleiðingarnar hefðu getað orðið ef þessi bilum hefði átt sér stað í vonskuveðri að vetrarlagi.“

„Stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða og sveitarstjórnir á Vestfjörðum hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að ljósleiðarinn sem liggur um Vestfirði sé hringtengdur“ sagði Lilja Rafney en harmaði að málið hefði ekkert þokast áfram undanfarin ár þrátt fyrir áætlanir Mílu þar um. „Reynslan hefur sýnt hve mikil mistök það voru að einkavæða grunnnetið,“ sagði Lilja Rafney og bætti við að það ætti að sjálfsögðu að vera í eigu þjóðarinnar. Lilja Rafney hvatti stjórnvöld svo til að stíga strax inn í þessar aðstæður enda sé ljóst „að núverandi fyrirkomulag er ekki að skila tilætluðum árangri.“

Lilja Rafney harmaði að ekki væri verið að leggja meiri fjármuni í uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni. „Við megum ekki fara á hraða snigilsins í þessu máli,“ sagði Lilja Rafney og benti á að það er ekki stór hluti landsmanna enn býr ekki við háhraðatengingar. Lilja Rafney lauk máli sínu með því að ítreka að það „löngu komi tími til að menn sýni það í verki, en ekki bara í nefndaskipunum, að ljúka þessu máli í eitt skipti fyrir öll.“