Málþing um olíuleit og loftslagsmál

Í framhaldi af flokksráðsfundi Vinstri grænna 17.-18. október stóð hreyfingin fyrir málþingi um olíuleit og loftslagsbreytingar þar sem þrír sérfræðingar á þessu sviði voru fengnir til að flytja erindi og sitja fyrir svörum.

Stefán Gíslason hjá Environice kynnti skýrslu um olíuleit á Drekasvæðinu. Stefán varaði við afleiðingum olíuvinnslu og benti meðal annars á að loftslagsmarkmið krefjist þess að meirihluti af þekktum jarðefnaeldsneytislindum sé ekki nýttur. Raunar telst Drekasvæðið ekki til slíkra linda og því sé ljóst að Ísland getur ekki lagt sitt af mörkum til að draga úr gróðurhúsalofttegundum ef farið verður í olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Halldór Björnsson loftslagssérfræðingur fjallaði um loftslagsmálin í víðu samhengi og rannsóknirnar sem búa þar að baki. Í erindi sínu benti Halldór meðal annars á að losun koldíoxíðs heldur áfram að aukast þrátt fyrir Kyoto-samninginn. Halldór fór einnig yfir áhrif losunar á súrnun sjávar, sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríki sjávar, og vísaði til rannsókna sem sýna að súrnun sjávar mun halda áfram svo lengi sem losun koldíoxíðs eykst.

Loks fjallaði Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur um viðskiptakerfi með losunarheimildir sem Ísland gerðist aðili í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hún benti meðal annars á að íslensk orkufyrirtæki selji svokallaðar upprunaheimildir með þeim afleiðingum að orka sem keypt er af íslenskum orkuveitum teljist í mörgum tilvikum ekki endurnýjanleg.