Mannauður skilar mestu – hugverkageirinn styrktur

Fjárfesting í mannauði hefur skilað miklu.

Forsætisráðherra boðar milljarða styrki til hugverkageirans á Íslandi.

Vísbendingar eru um að aukin fjárfesting í menntun eftir efnahagshrunið eigi þátt í vexti hugverkageirans síðustu ár. Tölvufræðingum fer fjölgandi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013. Á því kjörtímabili var tekin ákvörðun um að greiða fyrir menntun fólks sem missti vinnuna í kjölfar efnahagshrunsins, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Birtist það í fjölgun nemenda, bæði í framhaldsskólum og sérstaklega háskólum en skólarnir opnuðu dyr sínar fyrir miklum fjölda nemenda á þessum tíma. Sú fjölgun varð ekki síst í raungreinum, stærðfræði og í tölvunarfræðum. Fram kom í Morgunblaðinu í fyrradag að hlutur hugverkageirans í þjóðarframleiðslu nálgast 200 milljarða. Spurð um þennan vöxt, með hliðsjón af fjölgun tölvunarfræðinga, segir Katrín að fjárfesting í mannauði eftir efnahagshrunið hafi skilað árangri. Sá árangur sé jafnvel umfram væntingar. Styrktu fólk til að mennta sig »Við fórum í átaksverkefni sem ég hef verið mjög stolt af síðar meir. Við hvöttum fólk sem missti vinnuna í hruninu til að sækja sér menntun. Bæði voru búnar til námsbrautir en um leið tryggt að fólkið missti ekki atvinnuleysisbætur ef námið var ekki lánshæft. Síðar á þessu kjörtímabili settum við aukna fjármuni í rannsóknar- og tækniþróunarsjóð og inn í skapandi greinar. Það er mín trú að þetta hafi verið algjört lykilatriði og sé áfram lykilatriði í nýsköpun. Vöxtur hugverkageirans er mjög góð tíðindi. Af því að það skiptir svo miklu máli að við séum með fleiri stoðir undir okkar efnahagslífi og fleiri stoðir sem snúast um og byggjast á hugvitinu.« Katrín boðar frekari framlög til nýsköpunar. »Hluti af stefnumótun núverandi ríkisstjórnar er að fjárfesta meira í nýsköpun og þróun í gegnum nýjan þjóðarsjóð en sú fjárfesting gæti numið milljörðum á næstu árum. Samhliða því verður mótuð nýsköpunarstefna fyrir Ísland.« – Rætt er um að sterkt gengi krónu og hækkandi launakostnaður hafi skert samkeppnisstöðu Íslands. Hefur ríkisstjórnin skoðað mögulegar mótvægisaðgerðir? »Auðvitað skiptir máli að viðhalda efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Þar spila annars vegar saman ríkisfjármál, peningastefna og vinnumarkaðurinn og við erum að leggja okkar af mörkum í því efni. Hins vegar skiptir máli að stjórnvöld komi með virkari hætti að þessum geira. Það gerum við með stefnumótuninni og sérstakri áherslu á að við séum að byggja þetta upp til lengri tíma og með því að taka frá peninga til fjárfestinga,« segir Katrín