Margrét Guðnadóttir: Minning

Margrét Guðnadóttir lauk stúdentsprófi árið 1949 ásamt fleiri stúlkum sem síðar urðu mikilvægur hluti af Íslandssögunni: Vigdísi Finnbogadóttur, Ragnhildi Helgadóttur, Svövu Jakobsdóttur og fleirum. Hún var því af fyrstu kynslóð kvenna sem ólust upp í lýðveldinu Íslandi og þurftu að ryðja brautir og taka að sér hlutverk sem konum hafði aldrei áður verið treyst fyrir. Sjálf var Margrét fyrsta konan sem varð prófessor við Háskóla Íslands og í nítján ár var hún raunar eini kvenprófessorinn við Háskóla Íslands. Það sópaði að henni í því starfi og hvarvetna sem hún kom.

Margrétar verður eflaust einkum minnst fyrir rannsóknir sínar á hæggengum veirusjúkdómum og það gagn sem hún gerði í því starfi sínu í baráttunni við visnuna. Sjálf kynnstist ég henni í félagsstarfi Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboð upp úr 2000, hún gekk í flokkinn sjötug en þó alls ekki sest í helgan stein heldur tók hún virkan þátt í starfi hans. Ekki var hún oft í ræðustól en á henni var að vonum mikið mark tekið þegar hún tjáði sig. Þar að auki var Margrét tíður gestur á mótmælafundum og í kröfugöngum. Fáir munu hafa eytt fleiri klukkutímum í að mótmæla Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Meðal þeirra málefna sem hún lét sig varða voru jöfnuður og félagslegt réttlæti, friðarmál og ekki síst umhverfismálin. Þá var hún öflugur talsmaður fæðu- og matvælaöryggis enda sérfræðingur á því sviði. Þessi virkni hennar í baráttunni á gamals aldri segir sína sögu um konu sem hafði svo óbilandi trú á mannkyninu og framtíð þess að hún lét sig ekki muna um að eyða ellinni í fundahöld og í að standa með eigin sannfæringu fram í dauðann.

Margrét ferðaðist gjarnan með strætisvagninum, jafnan skynsamlega klædd og virtist lítt gefin fyrir tildur og fínheit. Hún gat verið ströng á svip en þegar henni var skemmt iðaði hún af hlátri og þá leyndi sér ekki hve ung hún var í anda fram eftir öllum aldri. Hún skipaði heiðurssæti á listum Vinstri-grænna í nokkur skipti og til hennar var þá oft leitað um aðstoð við texta eða stefnumótun. Hún nálgaðist þau verkefni ávallt af virðingu en reyndist jafnan hafsjór fróðleiks.

Margrét tók vel á móti ungum konum í hreyfingunni eins og ég kynntist af eigin raun. Hún hvatti okkur til dáða og vildi að konur væru í fremstu röð í stjórnmálunum. Ég er þakklát fyrir kynnin við slíkan frumkvöðul sem hefur verið mér og öðrum konum af yngri kynslóð fyrirmynd eins og fleiri hennar skólasystur. Hennar verður sárt saknað af félögum sínum í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði sem minnast hennar með þakklæti.

Katrín Jakobsdóttir