Þingflokkur fordæmir mannréttindabrot tyrkneskra stjórnvalda

Mikilvægi lýðræðis og varðstaða um mannréttindi í Tyrklandi

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir samstöðu með tyrkneskum almenningi , harmar mannfall í landinu og tekur undir með þeim sem hafa þungar áhyggjur af stöðu og þróun mála í Tyrklandi og nú síðast neyðarástandinu sem lýst hefur verið í landinu.

Þingflokkurinn fordæmir harðlega fjöldahandtökur, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Slíkt er algjörlega ótækt og kallar á alvarlegar athugasemdir á alþjóðlegum vettvangi.

Þingflokkurinn fordæmir brot á mannréttindum harðlega og telur mikilvægt að mannréttindi allra tyrkneskra borgara séu tryggð, lýðræði virt í hvívetna og að tyrkneskir borgarar njóti fullrar verndar óháð stöðu eða stétt.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar stuðning við lýðræðislegar stofnanir og lýðræðislega stjórnskipun sem eru grunnstoðir siðmenntaðra samfélaga og fordæmir alla tilburði til pólitískra hreinsana.

Loks leggur þingflokkurinn áherslu á að utanríkisráðherra nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.