„Mikilvægt að muna eftir húmornum“

Lilja_Rafney_motmaeliVerkalýðs-, stjórnmála-, bílstjóra- og sjómannskonan, móðirin og amman Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur setið sem þingmaður Norðvesturkjördæmis á Alþingi fyrir Vinstri græna síðan 2009. Það eru ein sjö ár í hringiðu stjórnmálanna.

„Ég kann mjög vel við þetta starf. Líklega er ég eins konar ástríðustjórnmálamaður inn við beinið. Ég kem að vestan og er fædd þar á Stað og uppalin á Suðureyri í Súgandafirði. Reyndar var ég alltaf með annan fótinn hjá afa og ömmu sem bjuggu búi sínu á Stað í Súgandafirði,“ segir hún. Lilja Rafney býr enn vestur á Suðureyri ásamt eiginmanni sínum Hilmari Oddi Gunnarssyni. „Og kettinum,“ bætir hún við.

Börnin þeirra fjögur sem nú eru á aldursbilinu 24 til 38 ár búa öll fyrir sunnan og barnabörnin eru orðin þrjú. „Þar af er eitt glænýtt,“ segir Lilja Rafney með stolti í röddinni. Þegar tóm gefst til frá þingstörfum í Reykjavík þá getur hún skotist til barna sinna og barnabarna. Annars fer hún yfirleitt heim á Suðureyri þegar frí falla á helgar en það getur nú verið allur gangur á því í lífi stjórmálafólks.LiljaRafney2

Fór ung í félagsmálin

Lilja Rafney segist ung hafa fengið áhuga á félagsmálum. Það voru sveitarstjórnarmálin, verkalýðsmálin og svo landsmálapólitíkin. „Ég fór þó ekki að hella mér út í þetta fyrr en um þrítugt þegar það tók að hægjast um hjá okkur í barnauppeldinu.

Þá fór ég í hreppsnefnd Suðureyrarhrepps sem þá var og hét. Ég var oddviti ung kona í fjögur ár. Síðan varð ég formaður í Verkalýðs- og sjómannafélaginu á Suðureyri í ein 16 ár og sinnti fleiri trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Meðal annars var ég varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða. Ég var á kafi í verkalýðsmálum fyrir vestan og tók þar meðal annars þátt í stóru fimm vikna verkfalli sem var 1997. Það var erfitt en við tókum slaginn þarna við að reyna að knýja fram hærri laun til fiskverkafólks.“

Stjórnmálastarfið vatt svo upp á sig með tímanum „Ég var í sveitarstjórnarmálunum og svo varaþingmaður Alþýðubandalagsins í tvö kjörtímabil. Svo fór ég í framboð fyrir Vinstri græn þegar flokkurinn bauð fram í fyrsta skipti. Þá voru Vestfirðir eigið kjördæmi. Ég leiddi listann en við náðum ekki inn manni. Í næstu kosningum þar á eftir 2003 var búið að sameina Vesturland, Vestfirði og Norðvesturland í Norðvesturkjördæmið sem nú er.

Þá náði Jón Bjarnason kjöri sem þingmaður Vinstri grænna. Ég var þá í þriðja sæti. Í kosningunum 2009 varð fylgissveiflan til okkar svo mikil eftir hrunið að við fengum þrjá þingmenn í kjördæminu. Það voru Jón Bjarnason, ég og Ásmundur Einar Daðason. Í kosningum 2013 vorum við þrjú í framboði fyrir sitthvora flokkana. Ég hélt áfram fyrir Vinstri græn og leiddi listann, Jón Bjarnason var í framboði fyrir Regnbogann og Ásmundur Einar var orðinn Framsóknarmaður.“

Gjá milli þings og þjóðar

Þingsetan hefur reynst Lilju Rafneyju góður skóli. „Bakgrunnur minn sem landsbyggðarkona að vestan hefur nýst mér mjög vel hér inni á þingi. Ég hef lært heilmikið á þessum tíma, starfið kallar á að eiga samskipti um ótal mál við fólk á ólíkum sviðum samfélagsins,“ segir hún. Lilja Rafney hefur lýst því yfir að hún gefi kost á sér til áframhaldandi þingsetu og reiknar með þingkosningum í haust.
„Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að ríkisstjórnin ætli að svíkja þjóðina um kosningar á haustdögum. Stjórnarandstaðan öll er sammála um að það eigi að kjósa. Þingmenn þurfa að fá endurnýjuð umboð. Stjórnin sem nú situr hefur ekki lengur umboð þjóðarinnar. Það varð rof á milli þings og þjóðar þegar í ljós kom nú í vor að forsætisráðherrann fyrrverandi sagði ekki satt og allt annað kom upp úr kafinu þegar á reyndi. Hann hafði verið með fjölskyldufjármuni í aflandsfélagi sem hann hafði áður þvertekið fyrir. Þarna varð trúnaðarbrestur. Það þarf að vinna upp traust að nýju og það gerum við með því að endurnýja umboð þingsins í kosningum.“
Þetta segir Lilja Rafney ákveðinni röddu. Hún segist búast við að Vinstri græn beiti forvali meðal flokksmanna til að ákveða röðun á framboðslista í Norðvesturkjördæmi. „Kjördæmisþing mun funda á næstunni til að taka ákvörðun um þetta en ég á von á það forvalið verði niðurstaðan.“

Aðspurð hvort hún búist við því að fleiri sækist eftir forystusætinu á listanum segist hún alveg eins búast við því.
„Já, dreymir ekki marga um að verða þingmenn? Það er eðlilegt að margir sjái sæng sína útbreidda í þeim efnum og vilji komast á þing því þetta er áhugavert starf.“ Við síðustu þingkosningar hefur þingmönnum kjördæmisins fækkað um einn í hvert sinn vegna þess að íbúum þess hefur fækkað hlutfallslega en fjölgað um leið á suðvesturhorninu. Nú verður þeim hins vegar ekki fækkað og verða áfram átta talsins.

Gott gengi í skoðanakönnunum

Vinstri græn virðast njóta meðbyrs þessa dagana. Síðustu skoðanakannanir benda til þess að flokkurinn hafi skyndilega tvöfaldað fylgi sitt nú á vordögum. Það mælist nú í kringum 20% sem þýðir að fimmti hver kjósandi segist myndu veita flokknum atkvæði sitt ef kosið yrði nú.

„Það er rétt að við erum á blússandi siglingu í skoðanakönnunum. Þetta fylgi er þó að sjálfsögðu ekki fast í hendi fyrr en búið er að kjósa,“ segir Lilja Rafney.

Hún telur að skattaskjól og spilling hafi opnað augu fólks fyrir því að Vinstri græn hafi alltaf verið sjálfum sér samkvæm og komið hreint og beint fram.
„Það var auðvitað áfall fyrir þjóðina að horfa upp á það þegar þessi aflandsfélög komu í ljós að það eru hreinlega tvær þjóðir í þessu landi. Stór hluti þjóðarinnar er bara skilinn eftir á meðan aðrir eru á fyrsta farrými. Þetta er ekki ásættanlegt. Við Vinstri græn höfum lagt fram þingmál um að fram fari opinbera rannsókn á fjármunum í skattaskjólum og munum gera allt sem við getum til að draga öll þessi mál fram í dagsljósið með sama hætti og gert var með rannsóknanefnd Alþingis eftir hrun.“
Fleiri þættir hafi að sögn Lilju einnig haft sín áhrif á fylgisþróunina. „Við höfum ekki verið að stökkva til með málflutningi sem við teljum að sé til vinsælda fallinn á hverjum tíma heldur haldið okkur á jörðinni. Við höfum staðið vörð um okkar góðu stefnu og talað fyrir henni. Það hefur verið heildarsvipur á þingflokknum okkar á kjörtímabilinu og hann unnið mjög vel saman.

Þó ég segi sjálf frá þá hefur þingflokkurinn verið hörkuduglegur og fylginn sér þessi þrjú ár sem liðin eru af kjörtímabilinu. Við höfum látið okkur öll mál varða, talað fyrir umhverfismálum, kjörum almennings og áfram mætti telja. Þessi vinna er að skila sér núna.“

Vill umbætur á strandveiðikerfinuLiljaRafney3

Nú þegar sjómannadagurinn nálgast er ekki úr vegi að víkja aðeins að sjávarútvegsmálunum. Í spalli okkar kemur fram að Lilja Rafney er að hluta til sjómannskona. Hilmar Oddur eiginmaður hennar stundar strandveiðar fyrir vestan á sumrin.

„Síðustu 35 árin hefur hann rekið vörubíl sem verktaki, bæði í vegavinnu og snjómokstri. Fyrir tveimur árum fór hann svo út í strandveiðarnar. Nú þegar við tölum saman er hann að róa karlinn, staddur einhvers staðar úti á Ballarhafi vestur af Barðanum á þriggja tonna horni. Manni stendur ekki alveg á sama,“ segir Lilja Rafney alvarleg í bragði.

Hún vill endurskoða strandveiðikerfið. „Það er ekki gallalaust. Þessar ólympísku veiðar þar sem allir keppast við að veiða úr sameiginlegum potti aflaheimilda skapar áhættusækni og slysahættu. Ég tel mjög mikilvægt að þessu verði breytt þannig að í staðinn fái menn úthlutað föstum dagafjölda innan mánaðarins sem þeir nýttu þá til róðra þegar þeim hentaði. Þetta mætti útfæra með ýmsum hætti. Til dæmis mætti tala um tíu til tólf daga í hverjum mánuði á hvern bát en ekki róið um helgar.“

Lilja Rafney segist búin að fylgjast með sjávarútvegsmálunum alveg frá því hún man eftir sér.
Ég er enda alin upp í litlu sjávarþorpi við að krían kom á vorin og þá lifnaði allt við og karlarnir fóru af vertíðabátunum og hófu að róa á sínum trillum. Ég veit vel hversu mikils virði það er fyrir þessi minni sjávarpláss að geta verið með sitt þar sem íbúarnir eru sínir eigin herrar. Það er eitt af því sem hefur verið sjarminn við þessa staði en auðvitað er fiskveiðikerfið búið að fara ótal kollhnísa með þessar byggðir.

Ríkið leigi út veiðiheimildir

Þrátt fyrir að Lilja Rafney vilji breyta strandveiðikerfinu þá segist hún stolt af því að það hafi verið hennar flokkur Vinstri græn sem átti frumkvæði að því að koma kerfinu á fót.

„Það gerðist strax og Steingrímur J. Sigfússon varð sjávarútvegsráðherra 2009 að hann fór að undirbúa frumvarp að lögum um strandveiðar sem tók síðan gildi þegar Jón Bjarnason varð sjávarútvegsráðherra. Þó að breyta megi þessu kerfi til bóta þá er enginn vafi á að strandveiðarnar hafa breytt miklu sérstaklega fyrir minni sjávarplássin. Þær hafa bæði glætt þau lífi og gert mönnum kleift að skapa sér einhverjar tekjur og hafa möguleika til að stunda útgerð. Strandveiðihlutinn hefur verið jákvætt skref sem hefur dregið úr gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið. Miklu meira þarf þó að koma til. Ég er hlynnt því að stokka upp kvótakerfið. Mér finnst það alveg meingallað og ekki hægt að komast yfir að lýsa öllum þeim ókostum í stuttu blaðaviðtali. Ég sæi til dæmis fyrir mér að ríkið væri með öflugan leigupott sem væri hægt að bjóða í og greiða eðlilegt afgjald af þeim heimildum til hins opinbera. Það væri miklu sanngjarnara heldur að útgerðir séu að versla með veiðiheimildir sín á milli og oftar en ekki á uppsprengdu verði.“

Áherslur í sjávarútvegsmálum verða sjálfsagt meðal þess sem landsbyggðarþingkonan Lilja Rafney Magnúsdóttir mun setja á oddinn fái hún áframhaldandi umboð eigin flokksfélaga til að standa í fylkingarbrjósti í Norðvesturkjödæmi í komandi kosningum.

„Ég vil líka halda áfram að berjast fyrir innviðauppbyggingu á landsbyggðinni svo ungt fólk sjá hag sinn í því að njóta þeirra fjölmörgu kosta sem fylgja því að búa til sjávar og sveita því tækifærin eru víða og vissulega eru góðir hlutir að gerast víða sem vekja manni bjartsýni. Mér finnst alltaf gaman í kosningabaráttu eftir að maður hefur hent sér út í djúpu laugina og baráttan er hafin. En í þessum störfum er mikilvægt að muna eftir húmornum, – því að það er gaman að lifa og fólk er skemmtilegt. Maður er manns gaman. Það má ekki gleymast þó verið sé að þvarga um ýmis mál,“ segir hún og er rokin á næsta fund.

Greinin birtist fyrst í blaðinu Vesturland.