Miklu fleiri ferðamenn?

Hann er langur listinn yfir brotalamir í ferðaþjónustunni sem allir eru sammála um að hafi verið gildasta líflína íslenska efnahagskerfisins, frá um það bil 2010 að telja. Greinin nýtur enn mikillar velvildar. Ölöf Ýrr ferðamálastjóri, minnti fyrir skömmu á að gagnrýni á flest sem miður fer, eða skortir, snúist aðallega um hve hægt stjórnvöld og fyrirtæki eða samtök greinarinnar bregðast við. Margir þurfa sannarlega að leggjast á eitt við að ná utan um heildrænt skipulag í ferðaþjónustunni, koma tekjuöflun í betra lag, láta sveitarfélög njóta afraksturs í greininni betur og bregðast skynsamlega við snarauknu álagi á samfélagið jafnt sem náttúruna, svo fátt eitt sé nefnt.

Engin endamörk?

Menningar- og náttúrunytjar geta ekki gengið upp án verndar minja og alls umhverfis. Til þess skilgreina menn þolmörk, jafnt félagsleg sem náttúruleg, jafnt fyrir staði sem svæði og fyrir landið sem heild,. Við viljum flest að atvinna sé fjölbreytt en ekki að þrjár greinar beri uppi langmest af henni, hvað þá ein atvinnugrein. Við viljum flest að sjálfbærni sé viðmið í ferðaþjónustu og sú stefna hefur verið mörkuð. Munum þá að hugtakið nær yfir félagslega og hagræna sjálfbærni ekki síður en að náttúran verði nytjuð á þann hátt að hún standi jafn góð eða betri á eftir. Munum hugtakið þolmörk. Þegar nú sumir stjórnmálamenn eða framámenn í ferðaþjónustu telja að við getum tekið við miklu fleiri ferðamönnum, vekur það margar spurningar. Eru þá engin þolmörk til? Hvað merkja orðin miklu fleiri? Hverjar eru tölurnar að baki þeim? Hvað er æskilegt góðu mannlífi í landinu og fyrir vandaða náttúruvernd? Engum dytti í hug að skipuleggja fiskveiðar með því að muldra eitthvað um miklu fleiri fiska. Munum líka að reiknaðar sviðsmyndir sýna að skyndilegur samdráttur í ferðaþjónustu myndi hafa alvarlegar afleiðingar.

 

Fyrstu skref til úrbóta

Meðal fyrstu skrefa til úrbóta eru auknar rannsóknir innan ferðaþjónustunnar, skipulagsbreytingar í stjórnsýslu og stofnanaflórunni og endurskoðun laga um ferðaþjónustuna. Ég hef nokkrum sinnum talað fyrir nýju ráðuneyti ferðamála og ætti það vissulega að vera til mikilvægrar umræðu, nú þegar fjöldi ferðamanna telst í milljónum og viðvarandi skortur á vinnuafli er staðreynd. Meginatvinnugrein landsins ber að umgangast eins þær sem áður voru það.

Ari Trausti Guðmundsson.

Höfundur er í 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi, (birtist fyrst í Morgunblaðinu)