Minning: Sigríður Kristinsdóttir

Ég kynntist Sigríði Kristinsdóttur á einum af mínum fyrstu fundum í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði árið 2002. Í fyrstu óttaðist ég þessa konu sem stóð sköruleg upp í pontu og lét félaga sína heyra það, ófeimin að ræða hvað mætti gera betur og hvaða mál við þyrftum að taka upp í hreyfingunni. Fljótlega rann þó upp fyrir mér að oftast var ég hjartanlega sammála Siggu enda talaði hún alltaf beint úr sínum pólitísku innyflum sem ávallt brunnu fyrir réttlæti. Hún var ófeimin við að benda á að prófgráður væru ekki endilega ávísun á pólitíska visku en um leið var ekki hægt að finna ötulli stuðningsmann góðrar menntunar fyrir alla enda fáir jafn vel lesnir í raun og Sigga.

Hún talaði fyrir fátækt fólk, börn og gamalmenni, þá sem höfðu orðið undir í lífinu, sjúklinga sem ekki áttu fyrir reikningum, börn sem ekki fengu þann stuðning sem þau þurftu. Hún var með stórt hjarta og þótt hún skammaði okkur stundum sem skipuðu forystu hreyfingarinnar þá þótti mér sjaldnast eins vænt um hrós frá neinum og Siggu því ég vissi að hún meinti hvert orð og sólundaði þeim aldrei í froðu og innantómt snakk.

Allir sem hafa starfað í pólitískri hreyfingu vita að í slíkri hreyfingu þarf að vinna ótal störf. Sigga gekk í öll þau störf, sat í málefnahópum, flokksráði, þreif klósett, hellti upp á kaffi, bakaði og gerði breytingatillögur án þess að blikna og minnti á að öll störf eru jafn mikilvæg. Það var ómetanlegt að kynnast henni sem ungur og óreyndur kosningastjóri í Reykjavík árið 2003. Hugmyndir mínar um magn veitinga ofan í kaffiþyrsta kjósendur, skipulag funda og mannfagnaða og nýtingu tímans í kosningabaráttu voru flestar fjarri veruleikanum og þá var gott að njóta reynslu Siggu ásamt fleirum, Sjöfn Ingólfsdóttur, Ástu Kristinsdóttur sem bakaði vöfflur í gríð og erg og þannig mætti lengi telja.

Í stjórnmálahreyfingum eru margar raddir og ólíkir félagar. Raddir foyrstumanna heyrast oftar en aðrar en það eru félagar eins og Sigga sem eru hjarta og sál Vinstri-grænna. Síðast sáumst við í 1. maí kaffi Vinstri-grænna í Reykjavík. Þar var Sigga mætt með Jóni, þar var Ásta sem sömuleiðis féll frá fyrir skömmu með Sigurði, manni sínum. Þar sungum við saman fyrir réttlátara samfélag.

Með Sigríði Kristinsdóttur er genginn góður félagi og mikil manneskja sem gerði líf allra sem fengu að kynnast henni ríkara. Hennar verður sárt saknað í Vinstri-grænum. Ég votta Jóni Torfasyni og börnum og barnabörnum samúð mína. Við munum minnast Siggu í hvert sinn sem við syngjum fyrir réttlátara samfélag.

Katrín Jakobsdóttir, 

Greinin birtist í Morgunblaðinu.