Misræmi í loftslagsmálum

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vakti athygli á misræmi í orðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag. Katrín benti á að forsætisráðherra hefði á lýst yfir stuðningi við yfirlýsinguna „Verðleggjum kolefni“ (e. „Putting a Price on Carbon“) en þar segir að stjórnvöld heiti því að vinna að því að styrkja gjaldtöku af losun kolefnis og fylgja henni betur eftir.

Katrín benti á að þetta samrýmist ekki aðgerðum ríkisstjórnarinnar: „Þetta er mjög athyglisverð og mikilvæg yfirlýsing í ljósi þess að ríkisstjórnin lækkaði kolefnisgjöld hér síðastliðið vor, og reyndar stendur líka til að lækka losunargjald vegna gjaldskyldrar losunar á gróðurhúsalofttegundum ef marka má frumvarp um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga,“ sagði Katrín og bætti við: „Ekki nóg með það heldur er líka kveðið á um að Loftslagssjóður, sem á að fjármagna rannsóknir í loftslagsmálum, fái ekki lengur helming þessa losunargjalds en það hefur hingað til verið eina fjármögnunarleið sjóðsins og því allsendis óvíst um hvernig sjóðurinn á að fjármagna sig.“

Katrín sagðist búast við breytingum á fjárlagafrumvarpinu í takt við nýjar yfirlýsingar forsætisráðherra: „Ég túlka yfirlýsingu forsætisráðherra sem svo að hún marki algjöra stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og fagna því að forsætisráðherra hefur lagt þarna nýja línu,“ sagði Katrín og bætti við: „Gjaldtaka af losun kolefnis er ein leið til að sporna gegn loftslagsbreytingum sem eru stærsta og mikilvægasta mál okkar samtíðar eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur bent á. Ég treysti því að við munum sjá miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu og styrkingu kolefnisgjaldtökunnar sem forsætisráðherra hefur lýst yfir stuðningi við.“