Fréttir

Mönnun í hjúkrun

Ein stærsta áskor­un sem Ísland og ná­granna­lönd þess standa frammi fyr­ir nú er mönn­un­ar­vandi í heil­brigðis­kerf­inu. Sá vandi hef­ur verið viðvar­andi í fjöl­menn­um starfs­stétt­um í heil­brigðis­kerf­inu, t.d. og sér­stak­lega hjá hjúkr­un­ar­fræðing­um. Það er áhyggju­efni að slík­ur flótti sé einna helst vanda­mál þegar um er að ræða stór­ar kvenna­stétt­ir og ljóst er að við þurf­um að bæta kjör hjúkr­un­ar­fræðinga og annarra fjöl­mennra kvenna­stétta, gera starfs­um­hverfið eft­ir­sókn­ar­verðara og meta mennt­un til launa á sann­gjarn­an hátt.Hvað hjúkr­un­ar­fræðinga varðar sér­stak­lega er áskor­un­in tvíþætt. Í fyrsta lagi þarf að tryggja að fjöldi út­skrifaðra hjúkr­un­ar­fræðinga verði í sam­ræmi við þörf og næga nýliðun í stétt­inni og í öðru lagi þarf að tryggja að þeir hjúkr­un­ar­fræðing­ar sem hafa menntað sig til starfs­ins skili sér í fagið og loks að leita leiða til að ná til baka þeim hjúkr­un­ar­fræðing­um sem ekki starfa við hjúkr­un.

Ég hef ákveðið að leggja sér­staka áherslu á þessi mál og hef til skoðunar aðgerðir í því skyni að tryggja mönn­un hjúkr­un­ar­fræðinga til framtíðar. Aðgerðirn­ar varða all­ar starfs­kjör hjúkr­un­ar­fræðinga á einn eða ann­an hátt. Þær varða meðal ann­ars kjör, vinnu­tíma, starfs­um­hverfi, menn­ingu og stjórn­un og mennt­un hjúkr­un­ar­fræðinga.

Hvað kjör varðar þarf að vera sam­hljóm­ur í upp­lif­un hjúkr­un­ar­fræðinga á ábyrgð og vinnu­álagi ann­ars veg­ar og launa­kjör­um hins veg­ar. Vinnu­tími og vakta­álag þurfa að vera þess eðlis að hægt sé að sam­ræma vinnu og einka­líf svo vel sé og starfs­um­hverfi þarf að vera til þess fallið að tryggja ör­yggi og heilsu starfs­manna. Í því sam­hengi skipt­ir vinnuaðstaða, tækja­búnaður, vinnu­álag og mögu­leik­ar til starfsþró­un­ar miklu máli.

Mik­il­vægt er einnig að fjöldi braut­skráðra hjúkr­un­ar­fræðinga taki mið af þörf fyr­ir nýliðun í heil­brigðisþjón­ust­unni. Í yf­ir­lýs­ingu minni, for­sæt­is­ráðherra og fjár­málaráðherra frá 12. fe­brú­ar 2018 í tengsl­um við kjara­samn­inga BHM kem­ur fram að ráðast eigi í sér­stakt átak í gerð nýrr­ar mannafla­spár fyr­ir heil­brigðis­kerfið. Að mínu mati er mik­il­vægt að manna­afla­spá taki einnig til hjúkr­un­ar­fræðinga.

Að mínu mati þarf póli­tísk­an vilja til þess að mönn­un heil­brigðisþjón­ust­unn­ar verði eins og best verður á kosið. Sam­starf við fag­stétt­irn­ar sjálf­ar er þar í for­grunni, skýr­ar spár og metnaðarfull framtíðar­sýn fyr­ir ís­lenska heil­brigðisþjón­ustu.

Svandís Svavarsdóttir er heil­brigðisráðherra.