Næsta skrefið í lýðræðisvæðingu í Reykjavík: Vinnustaðalýðræði

Eitt af því merkilegasta sem gert hefur verið í tíð núverandi meirihluta er að unnið hefur verið metnaðarfull lýðræðisstefna fyrir borgina. Við í VG og fulltrúar Pírata höfum borið hitann og þungann af þessari vinnu, en lýðræðismálin eru einn af þeim flötum þar sem Vinstri græn og Píratar hafa unnið náið saman. Í lýðræðisstefnunni er bæði mörkuð sýn til framtíðar og settar fram margþættar aðgerðir til þess að styrkja upplýsingaflæði til borgarbúa og auka samtal og samráð borgarkerfisins og kjörinna fulltrúa við íbúa.

Í stefnunni er líka að finna lið sem ekki á sér hliðstæðu í sambærilegum stefnum hérlendis og þó víðar væri leitað. Við í VG komum því til leiðar að í lýðræðisstefnunni er kveðið á um lýðræði á vinnustöðum borgarinnar.

Vinnustaðir eru ólýðræðislegir

Við lifum í lýðræðissamfélagi en þó eyðum við flest stórum hluta dagsins í mjög ólýðræðislegu umhverfi. Flestir vinnustaðir einkennast í raun fyrst og fremst af einræði frekar en lýðræði. Við höfum okkar yfirmenn, sem skipaðir eru að stjórnendum eða eigendum, yfirleitt algerlega án nokkurs samráðs við almenna starfsmenn.

Flestir vinnustaðir einkennast í raun fyrst og fremst af einræði frekar en lýðræði.

Auðvitað þekkjum við öll góða yfirmenn, en ég myndi vilja halda því fram að þeir séu góðir yfirmenn þrátt fyrir kerfið en ekki út af því. Góðir yfirmenn eru einmitt þeir sem ná að leysa upp hið hefðbundna stigveldisskipulag, tala af virðingu og gagnkvæmni við annað starfsfólk og leita leiða til þess að fá fólk til að vinna saman. Af hverju ekki þá að leysa þetta fyrirkomulag formlega upp?

Reykjavík sé leiðandi í vinnustaðalýðræði

Reykjavík getur rutt veginn í þessum efnum. Það gerir borgin með því að byrja á því að auka samráð við starfsmenn, virða þekkingu og reynslu fólksins á gólfinu að verðleikum og endurhugsa hlutverk yfirmanna. Í stað yfirmanna séu verkefnastjórar eða teymisstjórar.

Margir vinnustaðir borgarinnar vinna nú þegar eftir þessari hugmyndafræði, sérstaklega í leikskólum og grunnskólum borgarinnar. En við þurfum að formgera þetta, það á ekki að vera yfirmannanna sjálfra að ákveða hversu mikið lýðræðið er á hverjum vinnustað. Yfirmenn eiga heldur ekki að hafa vald til þess að taka það til baka um leið og í harðbakka slær.

Lýðræðislegir vinnustaðir eru betri vinnustaðir

Lýðræðislega rekin fyrirtæki eru stöðug. Þau stóðu t.a.m. af sér fjármálakreppuna mikið betur heldur en sambærileg kapítalísk fyrirtæki, þau greiða ekki brjálaðar arðgreiðslur til eigenda sinna og starfsfólk er almennt ánægðara með hlut sinn. Enda hefur það sýnt sig að möguleikarnir til þess að fá að hafa áhrif á það hvernig starf manns er unnið eykur vellíðan fólks í starf. Góður andi á vinnustað getur skipt sköpum og getur verið úrslitaþáttur í því hvort fólki líði vel í vinnunni, hvernig fólk sinnir vinnunni og hve há starfsmannaveltan er.

Aukum lýðræði á vinnustöðum.

 

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson er fulltrúi VG í stjórnkerfis og lýðræðisráði Reykjavíkur og skipar 6. sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar