Náttúruverndarlög samþykkt samhljóða

Ný náttúruverndarlög voru samþykkt á Alþingi í dag með 42 samhljóða atkvæðum. Þingmenn allra flokka hafa sagt við atkvæðagreiðsluna að lögin séu stórt framfaraskref, búið sé að lenda helstu ágreiningsefnum og ljóst sé að tíminn hafi verið notaður vel og hann hafi komið náttúrunni til góðs.

„Löngum leiðangri loks lokið með því að náttúruverndarlögin frá 2013 eru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í þingsal.” segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.

Hún segir að ný náttúruverndarlög séu veruleg réttarbót fyrir íslenska náttúru og framför fyrir náttúruvernd.

„Auðvitað er um að ræða málamiðlun í ýmsum efnum en mikilvægast er að Vinstri græn áttu sterka og mikilvæga aðkomu að heildarendurskoðun náttúruverndarlaga en það var eitt af okkar stóru verkefnum þegar ný ríkisstjórn tók við 2009.” bætir Svandís við.