Nefndarálit Bjarkeyjar Gunnarsdóttur

Bjarkey Gunnarsdóttir

Um þessar mundir fer fram önnur umræða fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. Bjarkey Gunnarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd, skrifaði allítarlegt nefndarálit við frumvarpið sem nálgast má hér. Við birtum hér niðurlag nefndarálitsins, sem ber heitið „Fyrirhrunspólitík í fjárlagafrumvarpinu“:

„Haustið 2008 hrundi fjármálakerfi Íslands með vel þekktum afleiðingum. Hin raunverulega orsök hrunsins var sá ójöfnuður og fjárglæfrastarfsemi sem á rætur að rekja til aðgerða stjórnvalda fyrir hrun, svo sem einkavæðingar bankanna og veðsetningu fiskveiðiauðlindarinnar. Vissulega tók Ísland þátt í alþjóðlegri þróun á þessum sviðum en hafa ber í huga að sú þróun var mótuð af nýfrjálshyggju og ekki hægt að benda á einhverja ósýnilega krafta til að skýra hrunið. Rekin var flöt skattastefna sem beinlínis stuðlaði að ójöfnuði en allir mælikvarðar sýna að ójöfnuður jókst hratt á síðustu árunum fyrir hrun. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem tók við eftir hrun tók ákvörðun um að breyta um stefnu og hefja uppbyggingu á nýjum grunni. Nú þegar önnur fjárlög nýrrar ríkisstjórnar eru komin fram bendir hins vegar allt til þess að gamla fyrirhrunspólitíkin ráði nú aftur för í stjórnarráðinu.

Þetta sést ef til vill einn best á þeirri áráttu núverandi ríkisstjórnar að „einfalda“ virðisaukaskattskerfið án tillits til afleiðinga þess fyrir ólíka tekjuhópa í landinu, afnema vörugjöld á sykraðar vörur þrátt fyrir augljósar afleiðingar þess fyrir lýðheilsu í landinu, lækka veiðigjöld á stórútgerð og framlengja ekki hóflegan auðlegðarskatt á allra ríkustu einstaklinga landsins. Á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins sést þetta á þeirri sveltistefnu sem rekin er gagnvart heilbrigðis- og menntastofnunum landsins, opinberum eftirlitsaðilum, svo sem skattrannsóknarstjóra og sérstökum saksóknara, Samkeppniseftirlitinu og opinberum stofnunum sem nauðsynlegar eru lýðræðinu í landinu, svo sem Ríkisútvarpinu. Ljóst er að þessi stefna ræðst ekki af nauðsyn á hagræðingu hjá hinu opinbera enda stendur til að veita um 100 milljörðum kr. í skuldaniðurfærslur til einstaklinga sem að stórum hluta eru hvorki í skuldavanda né eiga í öðrum fjárhagslegum erfiðleikum af neinu tagi.

Þvert á móti er sveltistefna núverandi ríkisstjórnar meðvituð hugmyndafræðileg aðgerð. Hún byggist á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og gengur út á að grafa undan því samfélagi jöfnuðar og samhjálpar sem einkennt hefur norrænu þjóðirnar undanfarna áratugi. Eins og hér hefur verið rakið er stefna næstu ára leynt og ljóst tekin á að skapa hér samfélag þar sem samneysla er svo lág að það stefni velferðarsamfélaginu sem slíku í hættu. Slíkar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi munu ekki fara fram þegjandi og hljóðalaust, hvorki af hálfu Vinstri grænna né almennings í landinu.“