Neytendahópur VG stofnaður

 

 

Stjórn Vinstri grænna hefur stofnað starfshóp til að móta stefnu í málefnum neytenda.  Markmiðið er að koma á framsækinni neytendastefnu undir merkjum sjálfbærni, jöfnuðar og umhverfisverndar.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður, Jakob S. Jónsson, leiðsögumaður og Ingimar Karl Helgason, fréttamaður sitja í starfshópnum, sem er að hefja störf. Eitt af forgangsmálunum verður að tryggja að neytendur geti leitað réttar síns.

Neytendur þurfa að geta treyst eftirlitsstofnunum til að veita réttar upplýsingar um aðbúnað og umhverfi dýra og plantna og uppruna allrar vöru í matvælaframleiðslu. Neysla hefur áhrif á umhverfið og ef neytendur eiga að geta haft áhrif í með ábyrgu vali á vörum og þjónustu, verður að vera hægt að treysta því að þær upplýsingar sem fram koma í kynningu á vörunni standist, sem því miður er ekki raunin.

Nýlegar uppljóstranir í fréttum sýna  að þörf er á að setja á laggirnar Umboðsmann neytenda eins og lagt var til í þingsályktunartillögu sem þverpólitískur þingmannahópur skilaði af sér síðastliðið sumar. Mikilvægt er einnig að tryggja upplýsingagjöf á mörgum fleiri sviðum en í matvælaframleiðslu.  Nefna má fjármálamarkaðinn, tryggingar og skilarétt og ýmis fleiri svið, til að virkja það mikilvæga hlutverk neytenda sem er að veita seljendum aðhald.