Nokkrar staðreyndir um heilbrigðismál

Lækn­um sem eru aðilar að ramma­samn­ingi Sjúkra­trygg­inga Íslands og sér­greina­lækna fjölgaði úr 343 árið 2014 í 357 árið 2016. Árið 2017 fjölgaði þeim enn frek­ar, í 368 lækna og í dag eru 347 lækn­ar aðilar að ramma­samn­ingn­um. Lækn­um sem eru aðilar að samn­ingn­um hef­ur því í heild fækkað um 21.Lækn­ar sem eru aðilar að ramma­samn­ing­um skipt­ast þannig eft­ir sér­grein­um:

Augn­lækn­ar eru 33, barna­lækn­ar 38, bæklun­ar­lækn­ar 26, geðlækn­ar 34, háls- nef-, og eyrna­lækn­ar 23, húðlækn­ar 18, kven­sjúk­dóma­lækn­ar 29, gigt­ar­lækn­ar 9, hjarta­lækn­ar 28, melt­ing­ar­lækn­ar 17, skurðlækn­ar 19, svæf­inga­lækn­ar 25, tauga­lækn­ar 6, þvag­færa­lækn­ar 11 og lýta­lækn­ar 6. Aðrar sér­grein­ar hafa færri lækna. Þess­ar töl­ur eru frá 2016 en hafa ekki breyst að ráði.

Nú er unnið að und­ir­bún­ingi nýs sam­komu­lags við sér­fræðilækna í vel­ferðarráðuneyt­inu. Miðað er við að það sam­komu­lag upp­fylli ákveðin skil­yrði, sem eru í sam­ræmi við ráðlegg­ing­ar og til­mæli Rík­is­end­ur­skoðunar og ábend­ing­ar sem fram komu í skýrslu McKins­ey. Fund­ur með sér­greina­lækn­um er ráðgerður í næstu viku.

Einnig er unnið að mót­un heil­brigðis­stefnu í ráðuneyt­inu. Það verður gert í sam­ráði við alla aðila máls­ins auk þess sem opnað verður fyr­ir sam­tal við þjóðina, stofn­an­ir, fé­laga­sam­tök, og fleiri. Starfið hingað til hef­ur fal­ist í að taka sam­an all­an efnivið sem unnið hef­ur verið með í ráðuneyt­inu síðastliðinn ára­tug. Í und­ir­bún­ingi eru tveir vinnu­dag­ar með fram­kvæmda­stjórn­um allra heil­brigðis­stofn­ana og stofn­un­um sem heyra und­ir heil­brigðisráðuneytið. Þeir fund­ir verða 3. og 4. októ­ber. Heil­brigðisþing verður haldið 2. nóv­em­ber, en það verður opið al­menn­ingi og hag­höf­um. Því næst verða drög að heil­brigðis­stefnu sett í sam­ráðsgátt og síðan verður unnið að gerð þings­álykt­un­ar­til­lögu sem von­andi verður lögð fyr­ir Alþingi á vorþingi. Þá koma að mál­inu all­ir flokk­ar sem full­trúa eiga á Alþingi.

Þótt efna­hag­ur þjóðar­inn­ar fari nú batn­andi erum við enn að vinna úr hrun­inu á marg­an hátt. Með því að setja fram vandaða heil­brigðis­stefnu, tryggja öfl­uga þjón­ustu op­in­berra sjúkra­húsa, efla göngu­deild­ir og treysta heilsu­gæsl­una um allt land, en líka með því að skýra samn­inga um kaup á heil­brigðisþjón­ustu sem ekki verður veitt af op­in­ber­um aðilum, þar sem mark­mið samn­ing­anna, gæðakröf­ur og ætlaður ár­ang­ur af þeim liggja ljós fyr­ir, nálg­umst við heild­stæðara kerfi og mark­viss­ari og betri þjón­ustu fyr­ir alla. Kjöl­fest­an verður að vera traust og öfl­ugt heil­brigðis­kerfi okk­ar allra, sem við eig­um sjálf og þjóðin hef­ur kallað eft­ir.

Höf­und­ur er heil­brigðisráðherra.