Norðurlönd verði vopnlaust svæði

Forsætisráðherra vill að norðurslóðir verði vopnlausar. Þetta kom fram á Norðurslóðaráðstefnunni Arctic Circle í morgun. Ráðstefnan er nú haldin í sjötta sinn á Íslandi. Meira en 2000 gestir frá sextíu löndum taka þátt.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnugesti, og sagði tíma kominn til aðgerða vegna hlýnunar jarðar. Þá hvatti hún til þess að norðurheimskautið yrði vettvangur alþjóðlegrar samvinnu til að stuðla að umhverfisvernd.

Þetta sé einungis hægt að gera ef þjóðir skuldbinda sig til þess að vinna saman, og til þess þurfi að tryggja að heimskautasvæðið verði vopnlaust, sagði Katrín.

Forsætisráðherra er einn af aðalræðumönnum Arctic Circle ráðstefnunnar.