Nú er málið í höndum Alþingis

Fyrir kosn­ingar bentum við í Vinstri grænum ítrekað á að það yrði að efla inn­viði sam­fé­lags­ins. Inn­við­irnir hafa verið van­rækt­ir, og það verður að kosta til veru­legum fjár­munum ef við viljum halda við því sam­fé­lagi sem við eig­um, hvað þá að byggja upp eins og allir sjá að nauð­syn kref­ur. Þau sem kusu Vinstri græn veittu okkur umboð fyrst og fremst til þessa. Búið er að skera vel­ferð­ina inn að beini og ef ekki á illa að fara verður að verja veru­legum fjár­munum í nýja sókn.

Við vilj­um:

Fjár­muni í heil­brigð­is­þjón­ust­una í sam­ræmi við und­ir­skriftir 86.000 Íslend­inga, svo nemur tugum millj­arða króna, – ekki dugir að mæta launa­hækk­un­um, það þarf meira til!

AUGLÝSING

Fjár­muni í mennta­mál, ekki síst háskóla­stig­ið.

Fjár­muni í vega­kerf­ið, bæði nýfram­kvæmdir og við­hald. Sú upp­bygg­ing er for­senda fyrir áfram­hald­andi sókn í ferða­þjón­ustu um allt land. Ferða­þjón­ustan á stærstan þátt í efna­hags­bata síð­ustu ára.

Veru­lega aukn­ingu fjár­muna til aldr­aðra og öryrkja þannig að þeirra laun hækki aft­ur­virkt. Það er risa­stórt rétt­læt­is­mál.

Við bentum ítrekað á fyrir kosn­ingar að þessir liðir kost­uðu nokk­urra tuga millj­arða aukn­ingu alls á kjör­tíma­bil­inu og að þá pen­inga gætum við sótt á rétta staði. Og auð­vitað er fleira sem þarf að sinna og fjár­magna, til dæmis við verndun og upp­bygg­ingu ferða­manna­staða, lög­gæslu eða svig­rúm sveit­ar­fé­laga til góðra verka, svo fátt eitt sé nefnt.

Aðrir stjórn­ar­and­stöðu­flokkar á síð­asta kjör­tíma­bili töl­uðu i sömu átt. Allir lögðu áherslu á þessi mál en unnu þó ekki kosn­ing­arn­ar. Kalla varð Við­reisn að borð­inu ef mynda átti starf­hæfa meiri­hluta­stjórn. Ekki mátti kalla Fram­sókn að borð­inu af því að Píratar neit­uðu að tala við flokk­inn þann og reyndar einnig vegna þess að Björt fram­tíð og Við­reisn, öllum að óvörum, höfðu límt sig sam­an.

Þannig var staðan læst. Þá fór Við­reisn að tala um upp­boð á afla­heim­ild­um. Við vorum til­búin til að ræða það, enda höfðum við lýst því marg­sinnis yfir í aðdrag­anda kosn­inga að við værum opin fyrir öllum leiðum sem tryggðu þjóð­inni eðli­lega hlut­deild í arð­inum af fisk­veiði­auð­lind­inni, án þess þó að setja byggðir lands­ins í upp­nám eða afhenda kvóta til langs tíma, hvað þá þrjá­tíu og þriggja ára eins og Við­reisn leggur upp með í sínum hug­mynd­um. Það var líka talað um land­bún­að­ar­mál á ágætum nótum en þeirri umræðu var heldur ekki lok­ið.

Í ljós kom að það var ekki unnt að ná fimm flokka meiri­hluta um að styrkja inn­við­ina. Þar strand­aði á því að sam­staða náð­ist ekki um að láta þá sem mest hafa í sam­fé­lag­inu borga fyrir þá fjár­fest­ingu og við­hald sem þjóðin getur ekki verið án. Það vildum við Vinstri græn gera og þar með standa við kosn­inga­lof­orð­in. Um þetta náð­ist ekki sam­staða og lengst var á milli Við­reisnar og Vinstri grænna.

Hvað er þá til ráða?

Framundan er afgreiðsla á fjár­lög­um. Þá er þingið frjálst – eng­inn meiri­hluti og eng­inn minni­hluti. Þá reynir á Alþingi. Þá kemur í ljós þegar þing­menn ýta á atkvæða­greiðslu­hnapp­ana úr hverju þeir eru gerðir og hvaða hags­muna þeir ætla að gæta. Eru þeir á Alþingi til að gæta sér­hags­muna pen­inga­afl­anna eða til að gæta almanna­hags­muna og standa með sam­fé­lag­inu , eins og Vinstri græn hafa viljað gera og ætla að gera?

Næsta leik á Alþingi.

Þá koma raun­veru­legar fyr­ir­ætl­anir flokk­anna í ljós.

Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna.