Nú er það súrt, maður   

 

Sjór er ekki aðeins saltur og með mikið af öðrum uppleystum efnum. Hann er líka ólíkur ferskvatni að því leyti að sýrustig hans er með sérstökum hætti. Sjór er ekki veik sýra en stefnir í að verða það ef styrkur kolsýru í lofti heldur áfram að hækka hratt. Allgóð gögn, allt frá 1983, eru til um breytingar á sýrustigi í sjó við Ísland. Mælingar á vegum Hafrannsóknarstofnunar og Háskóla Íslands (iðulega í samstarfi við erlenda aðila) sýna ótvírætt hvert stefnir. Þær bera líka vott um framsýni vegna þess að súrnun sjávar er okkur ekki hagfelld. Súrnunin er raunar þekkt hvarvetna í heimshöfnum en ólík nokkuð eftir hafsvæðum. Heldur örari í köldum sjó en heitum, þar með talið hér við land. Áhrif hennar á lífverur sem treysta sína vist og viðgang með stoðgrind eða hjúp úr efnasamböndum með kalki eru líka kunn. Súrt sjávarumhverfi veldur því að efnin leysast upp. Nóg er að leggja krítarmola í edik til að sjá í hnotskurn hvað gerist, að vísu mjög hratt, enda borðedik miklu súrara en sjórinn getur orðið um langan aldur, ef nokkurn tíma.

Áhrif súrnunar sjávar nú á tímum hraðrar hlýnunar loftslags er áhyggjuefni. Einkum vegna þess að stór hluti matvæla í heiminum kemur úr sjó. Þýðing sjávarútvegs á Íslandi er öllum kunn. Til eru ritgerðir og skýrslur með fræðilegum vísbendingum, rökum og sviðmyndum um hvað getur gerst ef heldur áfram sem horfir, án mótvægisaðgerða.

Enn vantar vandaða ritgerð eða skýrslu um margvísleg áhrif framvindunnar á íslenskan sjávarútveg. Slíkt innlegg er mikilvægt og skýrir umræðuna. Um verkefnið og fleira sem súrnunina varðar verður brátt rætt á Alþingi, í fyrirspurnartíma. Einnig verður að fara yfir hvernig auka má enn við samstarf vísindastofnana og stjórnvalda um allan heim í baráttu fyrir hratt minnkandi losun kolefnisgass en þar er að finna lykilinn að eðlilegu sýrustigi sjávar og lífvænlegu umhverfi í höfnunum. Löndin í norðurheimskautssvæðinu eru í lykilstöðu.

Ari Trausti Guðmundsson

Höfundur er 2. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis