Ný þingmál Vinstri grænna

Þingmenn Vinstri grænna lögðu fram mörg ný þingmál í vikunni. Lilja Rafney Magnúsdóttir lagði fram tillögu um háhraðatengingar í dreifbýli, sem er gífurlegt hagsmunamál fyrir marga landsmenn. Bjarkey Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um eflingu svæðisbundinna miðla, en þetta er annað stórt hagsmunamál landsbyggðarinnar.

Steinunn Þóra Árnadóttir lagði fram frumvarp til breytingar á lögum þar sem kveðið er á um að horfið verði frá skerðingu krónu á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót. Um er að ræða mikið baráttumál öryrkja sem í sumum tilvikum hafa engan hvata til að afla sér tekna í núverandi kerfi. Steinunn Þóra er líka fyrsti flutningsmaður frumvarps þriggja Vinstri grænna þingmanna um að heræfingar skuli vera háðar umhverfismati.

Loks er vert að vekja athygli á tveimur beittum fyrirspurnum sem lagðar voru fram í vikunni. Svandís Svavarsdóttir spyr umhverfisráðherra út í hvernig aðgerðaleysi og í sumum tilvikum afturför í loftslagsmálum samræmist Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þá spyrja Steingrímur J. Sigfússon, Lilja Rafney og Bjarkey menntamálaráðherra um niðurskurð og breytingar á framhaldsskólum.