Nýja leið í stað náttúrupassa

Það stefnir í mikil átök um hinn alræmda náttúrupassa og umræðan hefur verið afvegaleidd frá upphafi. Stjórnarmeirihlutinn hefur kosið að flytja þann boðskap af furðulegri nauðhyggju að passinn sé eina leiðin til að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu á náttúruverndarsvæðum og vinsælum ferðamannastöðum.

Það er dapurlegt að málið hafi farið í þennan átakafarveg, enda eru flestir á einu máli um mikilvægi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur skipt sköpum fyrir þjóðarbúið á undanförnum árum, meðal annars vegna þess að gjaldeyristekjur hafa aukist jafnt og þétt með sívaxandi fjölgun ferðamanna. Því miður hefur uppbygging innviða ekki náð að fylgja eftir þessari fjögun og þörfin því brýn til að finna leið til að fjármagna aukna uppbyggingu.

Vandi er sannarlega á ferð en á hinn bóginn er náttúrupassinn ekki eina lausnin og raunar ótvírætt versta lausnin. Fara mætti blandaða leið þar sem bæði ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki legðu sitt af mörkum, til dæmis með því að þróa áfram gistináttagjaldið sem er innheimt hvarvetna í Evrópu en hefur verið mjög lágt hér á landi. Þá mætti rukka fyrir ýmsa sértæka þjónustu, til að mynda bílastæði, enda ekki óeðlilegt að ferðamenn greiði fyrir slíkt. Einnig mætti athuga að leggja á einhvers konar komugjald á farseðla, til að mynda yfir hásumartímann. Þessar fjölbreyttu leiðir gætu skilað jafn miklum fjármunum og náttúrupassinn án þess að fótum troða grundvallarrétt almennings til frjálsrar farar um landið.

Hér er nefnilega rætt um grundvallaratriði. Vel væri hægt að ná sátt um leiðir til fjáröflunar án þess að takmarka ferðafrelsi með þeim hætti sem náttúrupassinn gerir. Almannarétturinn, rétturinn til frjálsrar farar um landið, hefur verið hluti af íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók. Þær reglur eru ekki séríslenskar. Þær hafa endurspeglast í rétti vestrænna ríkja allt frá því að almannaréttur var skilgreindur í Rómaveldi hinu forna. Með nefskatti á borð við náttúrupassann, þó að upphæðin sé í fyrstu ekki há, er verið að skerða ferðafrelsi.

Ráðherra ferðamála segir að þeir eigi að borga sem njóta. Ég er því ósammála. Þó að auðlindagjöld séu mikilvæg og eðlileg vekur það upp ýmsar siðferðilegar spurningar að rukka eigi fyrir aðgang að náttúrunni sjálfri. Er réttmætt að færa lögmál markaðarins með þessum hætti upp á náttúrugæði sem ekki fela í sér neinn efnislegan ágóða fyrir ferðamanninn? Því þeir sem ferðast hagnast ekki efnislega á því. Þeir njóta þessara sameiginlegu gæða okkar allra, ekki aðeins Íslendinga heldur okkar allra, án þess að þau séu þeim gróðalind. Þessi grundvallaratriði eru algjörlega vanreifuð í frumvarpinu og því sætir engri furðu að margir séu gáttaðir á þessari hugsun.

Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn sé ekki einhuga um málið, auk þess sem mikil andstaða er við málið hjá stjórnarandstöðunni og öllum almenningi. Ráðherra væri nær að skipta nú hressilega um stefnu og ná samkomulagi um blandaða leið með þingmönnum allra flokka og gefa náttúrupassanum reisupassann.

Katrín Jakobsdóttir