Nýja stefnu, nýja von

Katrín Jakobsdóttir skrifar

Nú í desember verður haldin loftslagsráðstefna í París. Sumir hafa kallað þennan fund mikilvægasta fund mannkynssögunnar enda er viðfangsefnið risavaxið, að tryggja að hlýnun verði haldið innan marka og jörðin verði áfram byggileg fyrir komandi kynslóðir.

Undanfarin ár hafa margar skýrslur verið lagðar fram um áhrif loftslagsbreytinga af manna völdum. Fáir afneita lengur loftslagsbreytingum en það er líka ljóst samkvæmt nýjum rannsóknum að fólki reynist erfitt að hugsa fram í tímann og takast á við svo stórt verkefni. Það er ekki hægt að leggja ábyrgðina á þessu verkefni á herðar einstaklinga þó að hver og einn geti lagt sitt af mörkum. Þetta er verkefni af slíkri stærðargráðu að stjórnvöld þurfa að taka afgerandi forystu og ráðast í róttækar aðgerðir. Þær leiðir sem hingað til hafa verið reyndar, á borð við viðskiptakerfi með losunarheimildir, hafa því miður ekki skilað nægjanlegum árangri. En hvað er þá til ráða?

Nýlega ályktaði landsfundur Vinstri-grænna að Ísland ætti að setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2050. Það þýðir að Ísland ætti að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og beita sér líka fyrir bindingu kolefnis. Til þessa eru ýmsar leiðir. Meðal annars þarf að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði, það þarf að setja öll frekari áform um mengandi orkufreka stóriðju af borðinu og hverfa frá áformum um olíuvinnslu. Það þarf ennfremur að binda kolefni, til dæmis með aukinni votlendisendurheimt. Skipuleggja þarf þéttbýli þannig að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir. Skoða á nýja möguleika í almenningssamgöngum, til dæmis léttlestir. Beita þarf enn frekari skattalegum hvötum til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn fyrir almenning.

Þá er mikilvægt að Ísland geri sitt til að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og stuðli með beinum styrkjum og skattalegum hvötum að auknum framförum á því sviði. Ísland getur þar orðið frumkvöðull í alþjóðasamfélaginu. Síðast en ekki síst á Ísland að beita sér gegn olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum en æ fleiri stjórnmálamenn stíga nú fram og lýsa því yfir að þeir standi gegn slíkum áformum, bæði vegna loftslagsbreytinga en líka vegna hugsanlegra áhrifa á hið viðkvæma vistkerfi Norðurslóða.

François Hollanda, forseti Frakklands, sótti Ísland heim á dögunum og ávarpaði ráðstefnuna Arctic Circle. Þar sagði hann að það breytti engu þó að einhverjir gætu grætt á loftslagsbreytingum, grætt á því að nýta auðlindir Norðurskautsins, grætt á nýjum siglingaleiðum. Við ættum ekki að græða á því sem ylli eymd annarra, sem skaðaði náttúruna. Um það snerist raunveruleg mannúð og þetta verkefni snerist um mennskuna og að tryggja mannúðlegan heim fyrir fólk um allan heim.

Ísland getur orðið fyrirmyndarland í þessum málum. Ekki með því að tala um að hér sé nú ansi gott ástand heldur með því að gera miklu betur. Þar geta stjórnvöld tekið forystuna, tekið nýja stefnu í atvinnuuppbyggingu, farið í aðgerðir til að flýta orkuskiptum í samgöngum, gefið yfirlýsingu um að Ísland muni beita sér fyrir því að vistkerfi Norðurslóða verði ekki ógnað með ágengri auðlindanýtingu. Því þó að Ísland sé ekki stórt land þá getur það haft áhrif. Og ef ekki er þörf á því núna þá veit ég ekki hvenær er þörf á slíku frumkvæði. Það er algjört lykilatriði að fundurinn í París skili okkur nýrri stefnu og nýrri von. Við getum lagt okkar af mörkum til þess.