Ögurstund hjá Grikklandi og ESB

Komið er að ögurstundu í samvinnu Grikklands og Evrópusambandsins. Þar er undir framtíð evrunnar og Evrópusambandið en ekki síður möguleikar almennings á að móta eigin framtíð. Grikkland hefur gengið í gegnum djúpa kreppu sem fjöldauppsagnir opinberra starfsmanna og niðurskurður á almannaþjónustu hafa einungis gert verri.

Nú hefur forsætisráðherrann Tsipras boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Grikkjum beri að samþykkja lánapakka ESB og þær aðgerðir sem honum fylgja. Víða í Evrópu hefur verið sótt að lýðræðinu á undanförnum misserum og leynilegar viðræður á borð við TTIP og TISA sem snúast um aukinn rétt stórfyrirtækja á kostnað lýðræðislegra stofnana eru dæmi um það. Nú er spurningin hver sigrar þessa baráttu – lýðræðið eða fjármagnið. Evrópusamstarfið hefur nefnilega að mörgu leyti verið farsælt þegar kemur að lýðræði og mannréttindum og á því þarf það að byggja – ekki síst í samskiptum við fjármagnsöflin.

Bandaríski fræðimaðurinn Paul Krugman hefur einmitt bent á að það er ekki óeðlilegt hjá grískum stjórnvöldum að leita til almennings um aðgerðir sem varða almannahag þó að margir gagnrýni grísku ríkisstjórnina fyrir þetta útspil. Joseph Stieglitz bendir ennfremur á að þó að hvorugur kostur sé góður þá skipti máli að Grikkir taki málin í sínar hendur og móti sína eigin framtíð. Sú framtíð verður að vera fyrir fólk.

Katrín Jakobsdóttir