Orð eru dýr

 

 

Ýmsir skoðanagjafar fárast yfir því að ekki skuli hafa tekist að mynda ríkisstjórn og hika ekki við að gefa flokkunum einkunnir eða staðhæfa að þessi eða hinn flokkur “hafi brugðist” eða “hafi stimplað sig út”. Greiningin er grunn og sennilega ekki mikið hirt um að lesa allan fjöldann af ósamhljóða frásögnum af gangi viðræðna og viðræðuslitum. Harla oft er ekki lagður trúnaður á orð forystumanna í umræðum, t.d. skrifuð eða sögð orð Katrínar Jakobsdóttur; hvað þá orð okkar hinna í þingflokknum. Þrennt langar mig að reifa.

 

  1. Úrslit kosninga ráða miklu um hvaða mynstur í meirihlutastjórn eru möguleg ef gert er áð fyrir raunverulegum málamiðlunum milli aðila í samsteypustjórn. Þannig eru núverandi styrkleikahlutföll erfið viðureignar og ekki bætir úr skák að einn flokkur hefur spyrt sig við annan – það var ekki fyrirsjánlget er kjósendur gengu í kjörklefa. Í einhverjum tilvikum vilja einn flokkur ekki ræða við annan og það flækir líka verkefnið.

 

  1. “Það tekst ekki að mynda stjórn – flokkarnir verða að mynda stjórn og láta af stífni¨- svona möntrur og aðrar álíka skipta tugum. En augljósa spurningum: Utan um hvað? er ekki hátt skrifuð. Samsteypustjórnir byggja m.a. á tvennu: Málefnastöðu sem aðilar geta sætt sig við – oftast nokkuð fjarri ítrustu kröfum – og svo trausti milli aðila. Á það reynir t.d. þegar óvæntum verkefnum (oft ekki í málefnaskrá) skýtur upp. Flokkar forgangsraða málefnum og taka ekki þátt í ríkisstjórn nema það náist ásættanleg málamiðlun miðað við áherslur í kosningum. Nú ráða mestu margtuggnir málaflokkar sem snúa að samfélagshjálp, heilsu, menntun og velferð, ásamt samgöngum. Þá dugar ekki að jánka umbótum í viðræðum heldur verður líka að stunda ábyrga fjármögnun þeirra ef fjárlagafrumvarp fyrri eða komandi stjórnar dugar ekki til.

 

3. Flokkar sem byggja á markaðri, víðtækri og skýrri hugmyndafræði eru trúir henni og kjósendum sínum að því marki að stjórnarseta, þegar svo ber undir, endurspeglar brýnustu hagsmuna- og lífsskilyrðakröfur umbjóðenda sinna. Um leið reyna þeir að þoka samfélaginu til þeirra gerðar sem þeir telja þjóna gildum er þeir skilgreina sem réttmætt, sanngjörn og affarasæl. Þess vegna bera í raun og veru allir flokkar sem standa undir nafni og taka þátt í vel heppnuðum eða misheppnum stjórnarmyndunarviðræðum ábyrgð á niðurstöðunni. Vissulega getur svo einn eða fleiri flokkar tekið á sig að lýsa yfir að ekki gangi nógu langt saman – það er heiðarlegt. Það er svo á ábyrgð þess sem hefur stjórnarmyndunarumboð að slíta viðræðum, ýmist í þökk allra eða sumra