Öruggt húsnæði, leið úr fátæktargildru.

Ný skýrsla um fátækt barna á Íslandi hefur vakið verðskuldaða athygli og kallar á aðgerðir. Fátækt ungs fólks og barna á Íslandi er nátengd erfiðleikum fólks við að koma sér fyrir í tryggu húsnæði. Engin úrræði eru á húsnæðismarkaði fyrir stóran hóp fólks, m.a. ungt fólk, aldraða og tekjulágar fjölskyldur. Þetta fólk greiðir nær óviðráðanlega stóran hluta tekna sinna fyrir tímabundið þak yfir höfuðið og getur á meðan ekki eignast eigið húsnæði. Mikil þörf er á að koma til móts við þennan hóp.

 

Þrír sérfræðingar ræða þennan samfélagsvanda, og mögulegar leiðir til úrbóta á opnum fundi í flokksráði VG á Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík, klukkan 14.00 á morgun. Frummælendur eru Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta og Henny Hinz, hagfræðingur á Alþýðusambandi Íslands.  Umræðum stjórna Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Skagafirði og Elín Sigurðardóttir, varaformaður velferðarráðs. Fundur Vinstri grænna um húsnæðisvanda og fátækt barna í tengslum við flokksráðsfund Vinstri Grænna er opinn öllum meðan húsrúm leyfir.