Óttastjórnmál víki: erindi Prögnu Patel á landsfundi VG

„Fasismi sem er byggður á þjóðernishyggju og trúarbrögðum er að festa rætur að nýju víða um heim. Þess sér ekki  eingöngu merki í Bandaríkjunum eða Póllandi eða Ungverjalandi, heldur líka í Indlandi, Tyrklandi, Myanmar og öðrum svæðum heimsins. Hann fer hönd í hönd við stjórnmál niðurskurðar og nýfrjálshyggju, sem leiðir til banvænnar blöndu kynþátta- og kynjahyggjuofbeldis, þar sem óumburðarlyndi, hatur, ójöfnuður og þröngsýni fá að þrífast.“

Þetta sagði Pragna Patel, forstöðukona grasrótarsamtakanna Southall Black Sisters í Lundúnum, á landsfundi Vinstri grænna á Grand hóteli í morgun. Patel varaði við uppsveiflu bókstafstrúar – þar sem trú er misnotuð í pólitískum tilgangi – og tilhneigingunni til að rugla saman framsækinni fjölmenningarstefnu við afturhaldssama trúarbragðastefnu, þar sem réttindi kvenna ættu undir högg að sækja.

Patel sagði Brexit hafa ýtt undir rasisma og innflytjendaandúð, sem aftur hafi ýtt undir hatursglæpi. Innflytjendakonur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og geti ekki alltaf leitað til yfirvalda eftir þjónustu og aðstoð, þar á meðal til að flýja ofbeldi.

„Rasísk innflytjendaandúð hefur ekki aðeins verið normaliseruð meðal almennings, heldur líka innan samfélaga innflytjenda, þar sem mismunandi hópar taka stöðu hver gegn öðrum.“

Patel fagnaði góðu gengi VG í skoðanakönnunum. Fengi VG brautargengi til að leiða ríkisstjórn að loknum kosningum hefði það ekki eingöngu áhrif á Íslandi, heldur víðar, þar sem óttastjórnmál vikju fyrir stjórnmálum vonar.