Óvissa um framtíð Hvanneyrar óþolandi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði menntamálaráðherra út í stöðu mála í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag. Katrín benti á að eftir uppsagnir tíu starfsmanna í vikunni vegna niðurskurðar í fjárlögum séu starfsmenn orðnir helmingi færri en þegar skólinn var sameinaður á sínum tíma. Katrín setti þessa þróun í samhengi við flutning starfa út á land: „Auðvitað stingur það mann í augun að horfa á sama tíma á önnur ráðuneyti lofa hér miklum fjármunum til að flytja störf fyrir háskólamenntaða starfsmenn út á land, á meðan þessi starfsemi virðist ætla að leysast upp.”

Í svari sínu vakti Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, athygli á slæmri fjárhagsstöðu skólans og sagðist hafa „lagt á það ríka kröfu að það yrði staðið við fjárlögin.“ Illugi taldi að það væri ekki pólitískur meirihluti fyrir sameiningu Landbúnaðarháskólans og Háskóla Íslands og vilji meirihlutans birtist í fjárlögum. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa gefið þá hugmynd upp á bátinn. Á móti spurði Katrín hvort pólitískur meirihluti væri fyrir því á Alþingi að starfseminni á Hvanneyri blæddi út. Katrín benti ennfremur á að það væri á ábyrgð Alþingis að standa undir þessum hluta rannsókna- og vísindastarfsemi í landinu.