Pastöldin verði önnur

Ein­kenn­is­hlutur nýhaf­innar aldar er plast­flaska. Í höndum skóla­fólks, á vinnu­stöð­um, í metra­löngum hillum versl­ana, á skyndi­bita­stöð­um, í höndum ferð­manna í skoð­un­ar­ferðum og þannig mætti lengi telja. Í Bret­landi nemur fram­leiðslan minnst einum millj­arði flaskna á ári. Hér hjá okkur nær fjöld­inn millj­ónum en ólíkt Bret­landi náum við að senda mun meira af þeim til end­ur­vinnslu en Bret­ar.

I. Óþarft er að fara með frek­ari tölur um þá mörgu millj­arða tonna af plasti sem hafa verið graf­in, lent í tjá og tundri í jarð­vegi og hafnað út í sjó. Leik­föng, fatn­að­ur, hús­gögn, plast­pok­ar… alls konar vörur í það óend­an­lega. Jafn hand­hæg og plast­efnin eru, valda þau miklum vand­ræðum með tím­an­um, þvert ofan í þá trú á fram­farir sem blind­aði mann­fólkið með þeim hætti að einnota og margnota plast­hlutum var hent eins og ekk­ert væri. Mjög víða ger­ist það enn, m.a. í flestum þró­un­ar­lönd­um, þar sem drykkj­ar­vatn er ýmist af skornum skammti eða mest af því ekki talið not­hæft nema tappað á flöskur í verk­smiðj­um. Í gömlum og nýjum iðn­ríkjum er sala á drykkjum í plast­flöskum stór­iðn­að­ur. Mest allar umbúðir utan um mat­vöru í versl­unum og t.d. fatnað eru úr plasti. Á opnum mörk­uðum er plast­pok­inn regla en aðrar umbúðir und­an­tekn­ing.

II. Söfnun til end­ur­vinnslu drykkja­vöruplasts spannar frá fáeinum pró­sent­um, t.d í sumum Evr­óp­ur­ríkj­um, upp í 70-90% á Norð­ur­lönd­um. Þá er ótalin önnur end­ur­vinnsla plasts, t.d. vöru­um­búða og plast­poka. Í fjöl­menn­ustu ríkjum heims, t.d. Kína, þar sem mikil end­ur­vinnsla aðfeng­ins plasts frá öðrum löndum fer fram, er inn­lend söfnun og end­ur­vinnsla plasts enn á lágu stigi. Raunar er öll end­ur­vinnsla efna, sem mun skipta sköpum um fram­tíð manna, því miður á lágu stigi, sé horft á ver­öld­ina. Ekki má heldur gleyma því að meg­in­efni í plast koma úr jarð­ol­íu.

III. Nú hafa margir, einkum séfræð­ingar til að byrja með, vaknað upp við vondan draum. Plast­hlutir og plast­agnir eru orðnar alvar­leg mengun í umhverfi okk­ar.

Plast leys­ist illa eða ekki upp og við­bót­ar­efni í plasti, m.a. lit­ar­efn­in, eru sum hver óholl líf­verum, loks­ins þegar þau smit­ast út í nátt­úr­una. Megin mengun plasts næstu ára­tugi eða aldir stafar þó af beinu nið­ur­broti þess í stóra og smáa hluta, þeirra á meðal örsmáar agn­ir. Smæstu plast­bút­arn­ir, örplast­ið, lenda í vefjum plantna og smærri dýra. Örplast og stærri plast­hlutar geta náð inn í inn­yfli og vefi fugla, fiska, skrið­dýra, spen­dýra og að lokum manna, efst í fæðu­keðj­unni. Vera má að aðskota­hlutir úr plasti leys­ist upp að ein­hverju leyti í melt­ing­ar­færum en mikið af plasti, einkum örögn­un­um, gerir það ekki en getur engu að síður valdið líf­verum skaða.

IV. Tölu­verðar rann­sóknir á við­bót­ar­efnum í plasti hafa farið fram, svo sem lit­ar­efnum og mýk­ing­ar­efn­um. Við hitun eða vegna vökva og ann­arra efna í snert­ingu við plast­um­búðir geta efnin losnað eða hvarfast og haft áhrif á líf­ver­ur. Þetta á t.d. við svokölluð bis­fen­ól-efni sem notuð eru til að mýkja sumar gerðir umbúða. Grunur leikur á þau hafi áhrif á horm­óna­starf­semi manna og önnur auka­efni geta ýtt undir krabba­meins­mynd­un. Tek skýrt fram að leita þarf til rann­sókn­ar­að­ila og setja sig inn í umræður sér­fræð­inga til þess að kynn­ast þessum þætti. Hér er minnst á efna­fæði­lega áhættu vegna plast­notk­unar svo hún ekki gleym­ist í umræð­unni.

V. Hér á landi hefur fallið til og fellur enn gríð­ar­mikið af plasti miðað við íbúa­fjölda. Und­an­farin hafur hefur söfnun og end­ur­vinnsla þess auk­ist ár frá ári, einkum með til­komu skila­gjalds á flöskum og flokk­un­ar­gáma í þétt­býli og dreif­býli. Miklu er samt farg­að, m.a. með urðun heim­ilssorps, og með því að leyfa plast­efnum að hverfa út í umhverf­ið. Nægir að benda á plast á ströndum og víða­vangi í bæjum og sveitum lands­ins. Hver sá sem gengur um hverfi Reykja­víkur hlýtur að taka eftir plast­rusl­inu sem sum­ar­starfs­fólk við hreinsun og plogg­arar hafa nóg með að hirða – svo ég minn­ist á minn heima­bæ. Ég full­yrði að almenn­ingur skuldi sjálfum sér mun meiri hirðu­semi, séð í heild, en raun ber vitni.

VI. Mörg verk­efni snúa að plast­á­þján­inni, sem ég hika ekki við að kalla plast­vá. Sam­tímis árétta ég að skyn­sam­leg notkun plasts og full end­ur­vinnsla er hluti nútíma­sam­fé­lags. Meðal ann­ars þarf breytt neyslu­mynstur til þess að minnka plast­notk­un. Það snýr að því að nota umbúðir og poka úr efnum fengnum með sjálf­bærum nytjum í jurta­rík­inu (pla­stí­gildi úr tréni, papp­ír, pappa ofl). Það snýr að því að versl­anir leggi áherslu á ferskvöru og lausa­sölu mat­vöru eftir vigt (þar sem það á við) og minnki sóun. Það snýr að skila­gjaldi á plast­hlutum og senni­lega þrepa­skiptu banni við almennri notkun plast­poka undir margs konar vörur og í inn­kaup­um. Þegar kemur að fram­leiðslu hluta úr plasti, eld­hús­á­halda, leik­fanga og ótal ann­arra vara verður að höfða jafnt til fram­leið­enda sem kaup­enda um að hafa vist­væna stefnu í heiðri. Margt verður búið til úr plast­efnum eftir sem áður og þá gildir að end­ur­vinnsla bjargi sem mestu.

VII. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar til næstu tæp­lega fjög­urra ára stend­ur: „Ráð­ist verður í lang­tíma­á­tak gegn einnota plasti með sér­stakri áherslu á fyr­ir­byggj­andi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda.“ Þau skref verður að und­ir­búa vand­lega og vinna og kosta í sam­vinnu við marga aðila. Í sept­em­ber 2016 var gert sam­komu­lag milli Umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­is­ins og Sam­taka versl­unar og þjón­ustu um að draga mark­visst úr notkun plast­burð­ar­poka fram til árs­loka 2019. Sýn­ist sem svo að það hafi ein­hvern árangur borið en betur má ef duga skal. Þings­á­lykt­un­ar­til­laga þess efnis að leita leiða til að banna notk­un­ina liggur fyrir þing­inu og á hún eftir að fá hefð­bundna umfjöll­un. Sam­vinnu þarf líka til á milli ríkja við norð­an­vert Atl­ants­haf til að snú­ast gegn plast­mengun í hafi. Það varðar fljót­andi plast­hluti í sjó, strand­hreinsun og plast á botni grunn­sævis en líka rann­sókn­ir, svo sem á örplasti í sjáv­ar­líf­ver­um. Um það fjallar til að mynda þings­á­lyktun sem Vest­nor­ræna ráðið lagði fyrir þing land­anna þriggja og verður vænt­an­lega sam­þykkt þar. Einnig má minna á ályktun Norð­ur­landa­ráðs um að banna örplast í snyrti­vör­um. Margar alþjóða­á­lykt­anir um plast­mengun eru til­. Allt ber að sama brunni þótt hægt gangi: Plast sem efni í ótal hluti hefur bæði jákvæðar og nei­kvæðar hlið­ar. Nú gildir að upp­ræta sem mest af nei­kvæðum áhrifum plasts á umhverf­ið, við fram­leiðslu þess, notk­un, förgun og end­ur­vinnslu. Það er þverpóli­tískt verk­efni og sam­eig­in­legt okkur öll­um.

Ari Trausti Guðmundsson.

Höf­undur er þing­maður VG og greinin birtist fyrst í Kjarnanum.